- Advertisement -

„Hvaða snillingur reiknaði þetta út?“

Guðmundur Ingi Kristinnsson:
Hvers vegna í ósköpunum höfum við þetta kerfi svona áfram?

„Ég fagna því að í nýjum pakka ríkisstjórnarinnar er aukning til listamannalauna en ég vil benda á það varðandi listamannalaunin, sem ég fagna sérstaklega, að það er búið að reikna það einhvern veginn út að rúmar 400.000 kr. sé það sem listamenn þurfa til að lifa, án skerðinga, skerðir engar aðrar tekjur. Það er frábært en á sama tíma erum við að gefa öryrkjum og eldri borgurum allt að 40% minni tekjur, 150.000 kr. minna. Það er allt skert og skerðist á keðjuverkandi hátt. Ég spyr: Hvaða snillingur reiknaði þetta út? Er þetta ný tegund af jafnrétti?“

Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi í dag.

„Nei, það getur ekki verið. Þetta er óréttlátt og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum höfum við þetta kerfi svona áfram? Við verðum að átta okkur á því að nýjustu tölur sýna að kaupmáttaraukning hjá öryrkjum 2018 og 2019 er núll í mínus. Við verðum líka að átta okkur á því að frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna hjá eldri borgurum, 25.000 kr., hefur ekkert breyst síðan 2017 og frítekjumark öryrkja er orðið meira en helmingi minna en það ætti að vera,“ sagði hann.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Katrín Jakobsdóttir:
Hér voru stigin fyrstu skrefin í því að draga úr skerðingum.

Katrín  Jakobsdóttir forsætisráðherra var til svara: „Hvað varðar öryrkja og eldri borgara hins vegar vil ég segja að það er ekki ár síðan Alþingi afgreiddi frumvarp um að draga úr skerðingum til öryrkja. Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta er ekki óbreytanlegt ástand. Hér voru stigin fyrstu skrefin í því að draga úr skerðingum og í þau skref var varið u.þ.b. 2,5 milljörðum þannig að það var mikilvægur áfangi til að koma til móts við kröfu öryrkja um að úr þessum skerðingum skyldi dregið.“

Um listamannalaunin sagði Katrín: „Ég vil þó segja í fyrsta lagi hvað varðar listamannalaun að þau lúta öðrum lögmálum en til að mynda laun almannatrygginga, hvort sem er til öryrkja eða eldri borgara, eða atvinnuleysisbætur þar sem um listamannalaunin er sótt í tiltekin verkefni. Sumir fá þrjá mánuði, aðrir fá sex mánuði, þeir sem fá mest fá þrjú ár. Það er lengsti mögulegi tíminn og þá úthlutun fá ekki margir. Listamannalaunin miðast við það að fram fari mat á þeim verkefnum sem sótt eru um og ekki fá allir þessi laun. Það er erfitt að bera þetta saman þó að ég taki undir með hv. þingmanni að það er gott að fjölga þessum launum af því að við vitum að bæði er listin mikilvæg í sjálfri sér en hagræn áhrif hinna skapandi greina eru líka ótvíræð.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: