Inga Sæland mælti fyrir frumvarpi, um almannatryggingar og endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga, í Alþingi í gær. Frumvarp er mikið að vexti og umfangi.
Stjórnarandstæðingar gengu úr þingsalnum meðan Inga mælti fyrir frumvarpinu.
„Þetta er algjörlega frábært mál og ég er ofurstolt af því, forseti, að ég sé loksins komin með það hérna og hef það gjörsamlega í hjartanu að það muni ná fram að ganga. Ákvörðun um hækkun greiðslna almannatrygginga í fjárlögum hvers árs mun eftir þessa breytingu byggja annars vegar á því að tengja hækkanir greiðslna við mælda þróun vísitölu launa og neysluverðs frá Hagstofu Íslands og hins vegar á spá um efnahagsþróun fjárlagaársins líkt og nú er.“
Síðar í ræðunni sagði Inga:
„Enn fremur felur frumvarpið í sér að ákvæði um stjórn Tryggingastofnunar verði felld úr lögum. Tryggingastofnun hefur haft sérstaka stjórn frá árinu 2004. Skipun seinustu stjórnar rann út í nóvember síðastliðnum eða við lok síðasta kjörtímabils og sú staða hefur ekki haft nein áhrif á starfsemi stofnunarinnar, enda er yfirstjórnunarhlutverk ráðherra skýrt samkvæmt lögum og því ekki ástæða til að hafa sérstaka stjórn með óljóst hlutverk yfir stofnuninni. Þess vegna er lagt til að fella ákvæði um stjórnina á brott úr lögunum.“