- Advertisement -

Ingibjörg fer í framboð

Ingibjörg Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykja­vík og nágrenni (FEB), gefur kost á sér í 4. – 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Prófkjörið fer fram dagana 4. og 5. Júní nk.

Ingibjörg vakti athygli þegar hún vann yfirburðar sigur á stærsta aðalfundi FEB til þessa en um 500 manns mættu til fundarins. Hún tók við félaginu af, Ellerti B. Schram, sem áður sat á Alþingi, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna.

„Formenn stærstu félaga eldri borgara, innan vébanda Landssambandsins, sendu frá sér áskorun til allra flokka sem sæti eiga á Alþingi í febrúarmánuði síðastliðinn. Þar skoruðum við á flokkana að tryggja eldra fólki sæti á framboðslistum þeirra enda verða á þessu ári um 75.000 manns á Íslandi, 60 ára og eldri, þar af verða um 45.000 67 ára og eldri. Þessi hópur þarf rödd í samfélaginu. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér enda brenn ég fyrir hagsmunum eldri borgara,“ segir Ingibjörg og bætir við: „Málefni og kjör eldra fólks eiga hug minn allan og ég mun ekki láta mitt eftir liggja í baráttunni fram undan fyrir bættum lífsgæðum eldra fólks.”

Ingibjörg er fædd í Reykjavík 24. mars 1947. Hún ólst upp í Reykjavík og Vestmannaeyjum en hún hefur starfað í ferðageiranum bæði erlendis og hérlendis.  Hún starfaði síðast hjá Air Atlanta áður en hún fór á eftirlaun.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ingibjörg stundaði tungumálanám í Þýskalandi og Spáni á yngri árum og á fullorðinsárum við Menntaskólann í Hamrahlíð og síðar við Háskóla Íslands í ferðamálafræðum. Hún hefur setið ótal ráðstefnur og endurmenntunarnámskeið í ýmsum greinum í tengslum við störf sín hverju sinni. Þá hefur Ingibjörg sinnt kennslu í þremur ferðamálaskólum hérlendis og kennt verðandi ferðaráðgjöfum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: