„Fyrir okkur landsbyggðarþingmenn hér þá ætla ég að skora á okkur að fara heim í hérað og eiga samtal við forsvarsmenn þessara fyrirtækja og kanna hvort þessi gögn séu rétt. Við skuldum þeim a.m.k. það.“
Ólafur Adolfsson.
„Síðastliðinn föstudag boðuðu Samtök sjávarútvegssveitarfélaga okkur þingmenn til kynningarfundar um möguleg áhrif fyrirhugaðrar hækkunar á veiðigjöldum á sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélög um allt land. Greiningin var unnin af KPMG upp úr gögnum frá fyrirtækjum í sjávarútvegi og tölum frá sveitarfélögum og Hagstofu Íslands. Skemmst er frá því að segja að greining KPMG dregur upp kolsvarta mynd af áhrifum frumvarpsins á sjávarútvegssveitarfélög og er algjörlega á skjön við niðurstöðu atvinnuvegaráðherra sem hefur boðað að áhrif fyrirliggjandi frumvarps á sveitarfélög séu óveruleg en rökstyður hins vegar þær fullyrðingar ekki með neinum gögnum eða vísun í að áhrifamat hafi raunverulega farið fram,“ sagði Ólafur Adolfsson þingmaður Sjálfstæðisflokki í norðvesturkjördæmi.
„Greiningin leiðir í ljós að áform um hækkun veiðigjalda mun hafa mun víðtækari og alvarlegri áhrif en áður var talið, bæði á fyrirtæki og sveitarfélög. Þar kemur m.a. fram að 141 sjávarútvegsfyrirtæki verði fyrir verulegum áhrifum af frumvarpinu og þurfi að þola að veiðigjöldin nemi 80% eða meira af meðalhagnaði síðustu þrjú ár. 14 þessara fyrirtækja eru á höfuðborgarsvæðinu en 127 þeirra úti á landi. Þar á meðal eru fjölmörg fyrirtæki sem starfa í sveitarfélögum sem sæta áskorununum í byggðamálum. Greining KPMG bendir til að áhrifin á sveitarfélög geti orðið margföld, með keðjuverkandi hætti. Samdráttur verður í útgerðinni sem leiðir til fækkunar starfa og afleiddra starfa, minnkandi framleiðslu, minni fjárfestingar og jú, óhjákvæmilega lægri skatttekna,“ sagði Ólafur.
„Fyrir okkur landsbyggðarþingmenn hér þá ætla ég að skora á okkur að fara heim í hérað og eiga samtal við forsvarsmenn þessara fyrirtækja og kanna hvort þessi gögn séu rétt. Við skuldum þeim a.m.k. það.“