- Advertisement -

Leynimakkið loðir enn við Bjarna

Oddný Harðardóttir skrifar:

Leynimakkið loðir enn við formann Sjálfstæðisflokksins. Úrskurður liggur nú fyrir frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess efnis að ráðuneyti Bjarna Benediktssonar hafi farið á svig við upplýsingalög þegar ákveðið var að halda upplýsingum um rannsókn Samherjaskjalanna og samskipti stofnana leyndum fyrir fréttamanni og þar með almenningi.

Það er ekki nóg að tryggja skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara nauðsynlega fjármuni til að bregðast við afhjúpunum á viðskiptaháttum Samherja í Afríku eins og við í Samfylkingunni þrýstum á að yrði gert. Heldur þarf líka að halda almenningi upplýstum um framgang málsins innan þess ramma sem lög leyfa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ein helsta röksemd ráðuneytisins fyrir því að leyna upplýsingunum var sú að gögnin vörðuðu mikilvæga viðskiptahagsmuni Samherja. Úrskurðarnefndin hafnar þessum rökum með afgerandi hætti og bendir á að í skjölunum sé „hvergi að finna upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál Samherja eða aðrar sambærilegar viðkvæmar upplýsingar um viðskipta- eða fjárhagshagsmuni félagsins“.

Ríkisstjórnin verður að hysja upp um sig buxurnar og tryggja að upplýsingagjöf um Samherjamálið sé í samræmi við lög og upplýsingaréttur almennings virtur. Trúverðugleiki kerfisins er í húfi. Samherji á enga heimtingu á sérmeðferð!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: