- Advertisement -

Lögmenn hafa ruglast í ríminu

Dómsmál „…ýmsir lögmenn virðast nú hafa ruglast í ríminu og telja að dómarar í héraði eða Hæstarétti séu andstæðingar þeirra og megi beita hverjum ráðum sem vill til þess að koma á þá höggi. Þeir sem þannig haga sér vita sem er að dómarar geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér í fjölmiðlum.“

Þetta skrifa, tveir hæstaréttarlögmenn og fyrrverandi formenn Lögmannafélags Íslands, Ragnar H.Hall og Sigurmar K. Albertsson, í grein sem birt var í Fréttablaðinu.

Þeir rifja upp fréttir af tveimur kærum á hendur dómurum við Hæstarétt. „Hvort tveggja málin tengjast úrskurðum um húsleitir og/eða símhlerun. Kæran á hendur hinum skipaða dómara fyrir að falsa úrskurð um símhlerun beindist einnig að Sérstökum saksóknara og ef til vill fleirum. Það mál mun hafa verið afgreitt af Ríkissaksóknara, þangað sem kærunni var beint, og ekki talin efni til aðgerða. Síðara málið gegn settum dómara varðar rösklega tveggja ára gamlan úrskurð um húsleit og virðist dómarinn, sem þá var við Héraðsdóm Reykjavíkur, vera kærður fyrir hegningarlagabrot fyrir að hafa kveðið upp rangan úrskurð!“

Ragnar og Sigurmar segja lögmenn vera þeirra skoðunar að lagareglur um úrskurði um húsleitir og símhleranir og aðrar rannsóknaraðgerðir séu verulega gallaðar og reglurnar sjálfar og framkvæmdin þarfnist mikilla endurbóta.

Sérstakur saksóknari brotlegur

Þeir víkja nokkrum orðum að sérstökum saksóknara.

„Margir lögmenn sem hafa verið í samskiptum við embætti Sérstaks saksóknara eru mjög gagnrýnir á stjórnsýslu, stjórnun og vinnulag þar á bæ. Hefur enda komið fram í dómi nú nýlega, það sem fjölmargir lögmenn vissu af reynslu, að hjá embættinu var brotið alvarlega gegn réttindum sakaðra manna í samskiptum við lögmenn sína. Um afsakanir og útskýringar á brotum er kurteislegast að segja að þær hafi verið klaufalegar. Rómverjar spurðu til forna: Quis custodiet ipsos custodes, sem eiginlega þýðir: Hverjir verja okkur fyrir varðmönnunum? Þegar lögreglu og ákæruvaldi er falið mikið vald til afskipta af almennum borgurum, er einstaklega mikilvægt að því sé beitt í samræmi við lög, lýðræðishefðir og í hófi. Á það hefur greinilega skort hjá embætti Sérstaks saksóknara.“

Samfélagið sýpur seyðið…
„Lögmenn og dómarar eru hvorir tveggja þjónar réttarins. Bæði lögmenn og dómarar verða að sjálfsögðu að hlíta lögum í störfum sínum, en það er ekki nóg. Samfélag okkar sýpur enn seyðið af framferði manna sem litu þannig á að ef þeir gætu, mættu þeir. Þeir sem vilja samfélagsskipan feiga ráðast einna fyrst að réttarkerfinu. Dómarar eru ekki friðhelgir, brjóti þeir lög verða þeir að taka afleiðingunum. Þá tæki þó fyrst steininn úr ef krafist yrði lögreglurannsóknar í hvert sinn sem sakaður maður eða málsaðili í einkamáli teldi dóm eða úrskurð rangan,“ segir í greininni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: