- Advertisement -

Louisa og Lennon á sama uppboði

Mörg áhugaverð verk eftir naivista verða einnig á uppboðinu auk verka gömlu meistaranna.

Á haustuppboði Gallerí Foldar verða boðin upp 104 verk af ýmsum toga. Sérstaka athygli vekur að boðin verða upp mörg góð pappírsverk. Þar má sértaklega nefna þrjú verk eftir Þorvald Skúlason, fallega teikningu eftir Mugg, þrykk eftir Salvador Dalí og þrykk eftir John Lennon.

Þá verða boðin upp þrjú verk eftir Lousiu Matthíasdóttur.

Af verkum gömlu meistaranna má nefna sérlega glæsilega landslagsmynd eftir Jóhannes S. Kjarval, uppstillingu eftir Jón Stefánsson, en slík verk eru alltaf eftirsótt og virkilega fínt abstrakt verk eftir Sverri Haraldsson. Sérstaka athygli vekja þrjár myndir eftir Louisu Matthíasdóttur, tvær þeirra olíuverk, hestamyndir. Einnig verða boðin upp verk eftir Finn Jónsson, Ásgrím Jónsson, Karen Agnete, Gunnlaug Blöndal, Kristján Davíðsson, Gunnlaug Scheving, Svavar Guðnason og Þórarinn B. Þorláksson.

Að þessu sinni verða boðin upp nokkuð mörg áhugaverð verk eftir naivista. Má þar meðal annars nefna stórskemmtilega mynd Ísleif Konráðsson af Vík í Mýrdal. Einnig verða boðin upp þrjár myndir eftir Stórval, myndir eftir Ísak Óla og Sigríði Rut, og stórt olíverk eftir Eggert Magnússon.

Af yngri höfundum má nefna stóra og glæsilega mynd eftir Þránd Þórarinsson af Kristnitökunni, falleg olíumynd eftir Guðbjörgu Lind, glæsilegt olíuverk eftir Eirík Smith, en slík verk teljast nokkuð sjaldgjæf, og fallegt olíuverk eftir Þorra Hringsson. Einnig verða boðin upp verk eftir Guðrúnu Einarsdóttur, Tolla, Heklu Björk, Tryggva Ólafsson, Soffíu Sæmundsdóttur, Daða Guðbjörnsson, Sossu, Hafstein Austmann, Karólínu Lárusdóttur, Harald Bilsson og Sigurbjörn Jónsson svo eitthvað sé nefnt. Einnig má nefna fimm fallegar fuglateikningar eftir Jón Baldur Hlíðberg, en um er að ræða frumteikningar úr bókinni Íslenskir fuglar.

Þá ber að nefna verk nokkurra stærstu málara seinni hluta síðustu aldar; þrívítt olíuverk eftir Braga Ásgeirsson, abstrakt þrykk eftir Karl Kvaran og olíumynd eftir Erró.

Öll verkin eru til sýnis í húsakynnum Gallerís Foldar á Rauðarárstíg frá miðvikudeginum 29. ágúst fram að uppboðsdegi, á opnunartíma Gallerísins. Einnig er hægt að skoða myndir af öllum verkunum á heimasíðu Gallerí Foldar, myndlist.is.

Uppboðið verður næstkomandi mánudagskvöld, 3. september, kl. 18 verður 111. uppboð Gallerís Foldar, að Rauðarárstíg 14. Sýning á verkunum hefst miðvikudaginn 29. ágúst en verkin verða sýnd daglega fram að uppboði á opnunartíma Gallerísins og á myndlist.is.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: