- Advertisement -

Mansal viðgengst á Íslandi

„Það er ekki boðlegt að hagvöxtur sé keyrður áfram að hluta til á fólki sem komið er fram við eins og þræla.“

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM skrifar: Á undanförnum árum hefur starfsemi starfsmannaleiga aukist mikið sérstaklega í þeim geirum sem vaxið hafa mikið og má þar t.d nefna mannvirkjagerð og ferðaþjónustu. Það getur verið mikilvægt fyrir land eins og Ísland á þeim tímum þegar ör vöxtur er að fá erlent vinnuafl til starfa. Það er nauðsynlegt að erlent vinnuafl vinni við hliðina á innlendu launafólki og það er krafa að allir séu á sömu kjörum, þegar talað er um kjör þá er mikilvægt að benda á það að ekki er einungis verið að tala um launakjör, heldur einnig aðra hluti eins og slysarétt og orlofsrétt. Einnig þarf að tryggja að hvíldartími sé virtur og að gerður sé ráðningarsamningur við allt launafólk og þeir séu fullnægjandi. Velferðarkerfið þarf einnig að taka utan um þetta fólk, við þurfum að tryggja öruggt og mannsæmandi húsnæði og að félagsleg staða þessa fólks sé það sama og innlends launafólks.   

Um síðustu helgi var fyrirlestur á Lýsu sem var fyrirlestrarröð um ýmis mál. Þar var fróðlegt erindi um hvernig er að vera útlendingur á íslenskum vinnumarkað. Komu þar fram hryllilegar sögur um aðbúnað erlends launafólks, launastuld atvinnurekanda á erlendu launafólki, veikindaréttur brotinn, hvíldartímaréttur ekki virtur og að fólk sem slasist eða veikist er sent úr landi án þess að réttur þess sé virtur. Bendir því margt til þess að hér á Íslandi viðgangist mansal á vissum stöðum í þjóðfélaginu.

Stéttarfélög og heildarsamtök þeirra hafa reynt að koma í veg fyrir að þetta viðgangist hér á landi en svo virðist vera að kerfið sjálft hafi lítil sem engin úrræði í þessum málaflokki. Í þessum fyrirlestri kom t.d fram að lögreglan telur sig hafa fá úrræði og einnig kom fram að kerfið er mjög svifaseint í þessum málaflokki.

Það er því morgunljóst að hér er kominn tími til þess að löggjafinn grípi inn, svo virðist sem Alþingi hafi dregið lappirnar og þarf því að fara strax í þá vinnu að bæta úr þessu svo kerfið sé kvikara og úrræði séu til staðar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Gera má ráð fyrir að hluti af miklum hagvexti þjóðarinnar á síðustu árum sé keyrður áfram af hluta til af þeim hópi sem hér er fjallað um. Það er ekki boðlegt að hagvöxtur sé keyrður áfram að hluta til á fólki sem komið er fram við eins og þræla. Alþingi verður að fara í vinnu strax til að koma í veg fyrir þetta og eiga heildarsamtök launafólks eiga að þrýsta á að úrræði sem við þurfum til þess að stoppa þetta verði gerð virk nú þegar. Það gengur ekki að Alþingi sé að halda hlífðarskildi yfir fámennum hópi óheiðarlegra atvinnurekanda sem maka krókinn á því að fara illa með þá sem minna mega sín. Borga jafnvel ekki skatta og skyldur eins og þeim ber og grafa þar með undan velferðarkerfi okkar.

Nauðsynlegt er að allir í Þjóðfélaginu taki þátt í að reka velferðarkerfið sem er okkar sameign, við eigum að hætta að láta það viðgangast að sumir fái afslátt af því að taka þátt. Boltinn er hjá Alþingi Íslendinga og ef alþingismönnum er alvara með því að hér eigi samfélagið að vera sanngjarnt, þá fara þau strax í þá vinnu að laga þetta.

Ef Alþingi Íslendinga fer ekki að hlusta þá má minna á það á hér á landi eru heildarsamtök launafólks með um það bil 170.000 félagsmenn. Það er lítið mál fyrir þessi heildarsamtök að virkja sína félagsmenn  að taka höndum saman og stöðva samfélagið í skamman tíma á meðan þessum málum er komið í viðunandi horf.  

Löggjafinn verður að laga þennan málaflokk á þessu þingi, til hagsbóta öllu launafólki.

Vilji er allt sem þarf!          


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: