- Advertisement -

Markmið auðvaldsins: Laun flugmanna undir atvinnuleysisbætur

Gunnar Smári skrifar:

Þriggja manna stjórn verkalýðsfélagsins sem Play kaus að gera samning við í stað þeirra félaga sem eru í raun til segir í yfirlýsingu: „Í þessu felst að samningarnir hafa ekki verið bornir undir félagsmenn ÍFF enda þeim vart til að dreifa þegar samningarnir voru gerðir.“

Þetta er því augljóslega ekki verkalýðsfélag í neinum skilningi, heldur það sem kallast gult verkalýðsfélag, félag sem er undir stjórn fyrirtækjaeigenda og hefur þann tilgang að halda aftur af stéttabaráttu launafólks. Þetta er sú leið sem Icelandair var ráðlagt að fara af bandarískum ráðgjöfum um union-busting, niðurbrot stéttarfélaga, í fyrrasumar og sú leið sem Play hefur valið að fara. Markmið þessara fyrirtækja er að berja launakjör á Íslandi niður í það sem tíðkast í austanverðri Evrópu.

Þetta er gert með stuðningi Samtaka atvinnulífsins og vitund og stuðningi ríkisstjórnarinnar, sem skilyrti stuðning sinn við Icelandair í fyrra við að nýtt hlutafé kæmi að fyrirtækinu, vitandi að á bak við nýtt hlutafé voru kröfur um umtalsverða lækkun launakostnaðar.

Hér má sjá árangurinn, byrjunarlaun flugmanna eru komin undir atvinnuleysisbætur; stéttar sem á árum áður var meðal tekjuhæstu launamanna á Íslandi.

Fjármagnseigendur og allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna ætla að nota kórónafaraldurinn og efnahagskreppuna sem honum fylgir, til að gera árás á íslenskt launafólk. Þeir reyndu að fella burt umsamdar launahækkanir í haust og fengu í sárabætur, þegar það tókst ekki, að vaða í ríkissjóð og fylla alla vasa af fé. Markmið þeirra er að uppskera stórkostlegar skattalækkanir til hinna ríku eftir næstu kosningar og það sem þeir telja mikilvægast; að taka upp vinnulöggjöfina og brjóta niður samningsrétt launafólks.

Ástæða þess að auðvaldið og stjórnmálaflokkar á þess vegum þola illa að talað um stéttabaráttu er að auðvaldið vill að sú barátta fari fram í leynum, það vill sækja fram án þess að um það sé rætt, vitandi að það nýtur í reynd einskis stuðnings og má því ekki upplýsa um áform sín. Þess vegna kalla þau viðvarandi byltingu sína, aukin völd auðvaldsins og niðurbrot á valdi almennings, stöðugleika, eins og gagnbylting auðvaldsins sé engin breyting og engin hætta. Reyndin er hins vegar að stefna auðvaldsins er hröð bylting, niðurbrot þess samfélags sem byggt var upp af baráttu verkalýðshreyfingarinnar á síðustu öld.

Skýra má markmið stefnu auðvaldsins svona: Flugmenn séu með lægri laun en atvinnuleysisbætur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: