- Advertisement -

Með og á móti ákvörðun kjararáðs

„Það þarf að horfa til þess sem stjórn­völd hafa gert.“ „Það er ekki sannfærandi að biðja aðra um að vera með hóflegar launakröfur þegar þessi fyrirmynd liggur fyrir.“

Í Mogganum í dag kemur kjararáð við sögu í tveimur fréttum. Annars vegar í viðtali við Katrínu Jakobsdóttur og hins vegar í viðtali við Steinþór Skúlason, forstjóra SS. Þau tvö líta kjararáð og ákvarðanir þess mjög ólíkum augum.

Katrín er spurð hvort ákv­arðanir kjararáðs muni ekki óhjá­kvæmi­lega hafa áhrif á samn­ingaviðræður í komandi launadeilum. Hún heldur ekki og svarar svona:

 „Það þarf að horfa til þess sem stjórn­völd hafa gert. Það var gerð skýrsla sem var sam­eig­in­legt verk­efni aðila vinnu­markaðar­ins og stjórn­valda. Niðurstaðan þar var að leggja niður kjararáð og búa til nýtt fyr­ir­komu­lag sem kemst á í haust,“ svar­aði Katrín.

„Þar kem­ur líka fram að ef við tök­um sam­an meðaltalsþróun launa þeirra sem heyra und­ir kjararáð og miðum við að eng­ar frek­ari breyt­ing­ar verði á henni út þetta ár, þá er sá hóp­ur í takt við launaþróun á al­menn­um markaði, þó að það sé dá­lít­ill mun­ur á milli ólíkra hópa sem heyra und­ir kjararáð. Þess­ar töl­ur liggja all­ar fyr­ir og það eru ekki fyr­ir­liggj­andi breyt­ing­ar á kjör­um þeirra sem heyra und­ir kjararáð,“ svaraði Katrín forsætisráðherra.

Steinþór forstjóri SS eru ekki sammála henni.

„Já, ég held að við séum á leið í 5- 10% verðbólgu á næstu tveimur árum eða svo. Auðvitað tel ég eins og margir aðrir að fyrri ríkisstjórn hafi gert herfileg mistök með því að ógilda ekki úrskurði kjararáðs. Allt sem hefur gerst síðan er afleiðing þess,“ sagði Steinþór og vísar til launahækkana.

„Það er ekki sannfærandi að biðja aðra um að vera með hóflegar launakröfur þegar þessi fyrirmynd liggur fyrir. Það hlýtur að vera óheppilegt að opinberir starfsmenn leiði launaþróun,“ sagði Steinþór.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: