- Advertisement -

Mikill ótti í herbúðum Bjarna Ben vegna mögulegs formannsframboðs Guðlaugs Þórs: „Ég hef svo sem lítið að segja“

Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, segir það ekkert nema eðlilegt að hann bjóði sig aftur fram sem formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi, sem haldinn verður í nóvember næstkomandi.

Í síðustu viku var greint frá því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins færi fram nóvember næstkomandi; dagana 13.-15.

Á slíkum landsfundum er venjan sú að kosið sé um formann, varaformann og ritara flokksins; þá er stefna flokksins einnig mótuð á slíkum fundi.

Bjarni segir að honum þyki mjög eðlilegt að hann vilji halda áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Ég hef svo sem lítið annað að segja enn að kjörtímabilið er nýbyrjað.“

Valdatíð Bjarna í Valhöll hefur verið löng og nokkuð ströng, en hann settist í formannsstólinn árið 2009.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Vegna Covid 19 hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki haldið landsfund síðan árið 2018.

Það ár var Bjarni endurkjörinn formaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var kjörin sem varaformaður og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hlaut kjör sem ritari.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Á þeim tíma fékk ekkert þeirra mótframboð; hlutu öll yfir 90% gildra atkvæða.

Óvíst er á þessari stundu hvort einhver fari fram gegn þremenningunum Bjarna, Áslaugu og Þórdísi. En afar sterkur og ólseigur orðrómur þess eðlis að Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sé nú að velta alvarlega fyrir sér að bjóða sig fram gegn Bjarna; talið er að staða Guðlaugs Þórs innan flokksins sé afar sterk og að mikill ótti sé innan raða Bjarna vegna þessa mögulega framboðs Guðlaugs Þórs.

Samkvæmt heimildum Miðjunnar úr röðum Sjálfstæðisflokksins er mikið rætt um að núna sé fullkominn tími fyrir Guðlaug Þór að fara fram gegn Bjarna, en sá síðarnefndi hefur legið undir miklum ámælum vegna sölu á hlut í Íslandsbanka – þar sem fáir útvaldir, þar á meðal faðir Bjarna, fengu að kaupa, en ekki almenningur á Íslandi. Þá benda áðurnefndir heimildarmenn Miðjunnar á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skroppið svakalega mikið saman í valdatíð Bjarna.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Skemmst er að minnast þess þegar Guðlaugur Þór utanríkisráðherra lagði Áslaugu Örnu að velli með eftirminnilegum hætti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í fyrra, og sendi þar með afar sterk skilaboð til flokksmanna um að staða hans væri meira en lítið sterk.

Þess má geta að seturétt á landsfundi eiga flokksráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, auk þess sem félög og fulltrúaráð kjósa fulltrúa til setu á fundinum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: