- Advertisement -

Nýfrjálshyggjan hefur stórskaðað öll samfélög

Hvað gengur fólki til sem vill hrifsa mat frá börnum?

Gunnar Smári skrifar:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum áratugum helst tekið mið af pólitík Repúblikana í Bandaríkjunum og Íhaldsflokksins breska og hætt að taka mið af stefnu hefðbundinna hægri flokka á Norðurlöndunum og Norðvestur Evrópu. Flokkurinn rekur stefnu sem mun á endanum brjóta niður öryggisnet samfélagsins, sem byggt var upp á eftirstríðsárunum í sæmilegri sátt verkalýðshreyfingarinnar og flokka sem áttu rætur í henni annars vegar og hins vegar hinna hefðbundnu hægri flokka, sem flestir kenndu sig við kristileg eða borgaraleg gildi.

Nýfrjálshyggjan stendur ekki á slíkum menningarlegum og sögulegum grunni heldur byggir á sannfæringu um höfnun mannúðar og samkenndar, samhjálpar og samvinnu, muni færa okkur veröld nýja og góða. Nýfrjálshyggjan er byltingarstefna hinna ríku og stefnir að alræði auðvaldsins og kúgun annarra, vill færa völd frá hinum pólitíska vettvangi þar sem hver maður hefur eitt atkvæði og yfir á markaðinn þar sem hver króna hefur eitt atkvæði og hin ríku drottna yfir öllu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nýfrjálshyggjan hefur stórskaðað öll samfélög, veikt norrænu velferðarsamfélögin og grafið undan arfleið eftirstríðsáranna í Þýskalandi, Frakklandi og öðrum löndum meginlandsins. Mestur hefur skaðinn orðið í enskumælandi löndunum; Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja Sjálandi þar sem íhaldsflokkarnir breyttust í byltingarflokka nýfrjálshyggjunnar sannfærðir um að eyðileggja öryggisnet samfélagsins og þar sem vinstriflokkarnir tóku í reynd upp efnahagsstefnu nýfrjálshyggjunnar, studdu skattalækkanir til hinna ríku í þeirri blekkingu að með því að beygja sig undir kröfu þeirra gætu þeir frestað um tíma niðurbroti samfélagsins.

Árangurinn af þessari stefnu má sjá á þessu grafi. Um fimmtungur barna í Bretlandi og Bandaríkjunum fær ekki nóg að borða. Okkar heimshluti, þar sem eyðileggjandi áhrif nýfrjálshyggjunnar hafa ekki verið jafn svívirðileg er hlutfallið um 5-9%. Sem er of hátt. Ef fólk í þessum löndum hefði varist nýfrjálshyggjunni betur væri þetta hlutfall miklu lægra.

Það er náttúrlega engin leið fyrir venjulegt fólk að skilja á hvaða leið forysta Sjálfstæðisflokksins hefur verið undanfarna áratugi. Hvað gengur fólki til sem vill hrifsa mat frá börnum? Með hverju blindar fólk sig svo það getur talið að á bak við þá aðgerð sé markmið sem getur réttlætt það; að ef við sveltum nógu mikið af börnum munum við hreppa einhver verðlaun? Þetta er náttúrlega óskiljanleg grimmd og skepnuskapur. Það er eins og fólk sem eltir forystu Sjálfstæðisflokkinn í þessum andmannúarleiðangri sé á sterkum lyfjum eða hafi verið dáleitt.

Samhliða því að hafa þrýst fimmtungi allra barna niður í bjargarleysi og fátækt hefur breska Íhaldsflokknum og Repúblikönum í Bandaríkjunum tekist að leysa upp lýðræðisleg kerfi þessara landa og svo gott sem eyðilagt stjórnmálin innan þeirra. Það er hluti af planinu; að koma á alræði auðvaldsins með því að leysa upp hinn lýðræðislega vettvang. Þetta, niðurbrot lýðræðis og svöng börn, finnst forystu Sjálfstæðisflokksins gott plan.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: