Alþingi: Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki hélt ræðu um breytingar á innheimtu gjalda af bílum. Vilhjálmur sagði:
„Í dag erum við með þannig kerfi, sem þetta kerfi á að leysa af hólmi, að þegar þið dælið eldsneyti á ökutækið ykkar, á fjölskyldubílinn eða atvinnutækið, þá eru greidd bensín- og dísilgjöld samhliða, þið borgið fyrir hvern lítra sem þið dælið á bílinn og olíufélögin, þrjú eða fjögur, skila gjaldinu til ríkissjóðs. Málið út úr sögunni, allt klárt, allir vita hvað þeir borga mikið og þetta er bara klárt.“
Vilhjálmur sagði svo:
„En ef þetta kerfi nær fram að ganga, þá erum við komin með einhverja langa töflu með mismunandi gjaldflokkum eftir mismunandi tegundum. Það þarf að búa til nýtt tölvukerfi til að innheimta þetta hjá Skattinum sem þarf að geta talað við tölvukerfi Samgöngustofu og báðar þessar stofnanir þurfa að ráða starfsfólk og hafa kostnað af þessu. Hver einasti eigandi á hverju einasta ökutæki í landinu þarf að skrá það mánaðarlega eða reglulega, aksturinn, fá svo greiðsluseðil sem styrkir bankann um 28 kr. í hvert skipti, eykur veltuna hjá bankakerfinu, það er kannski gott fyrir einhver störf í landinu, ég veit það ekki. Það þarf að færa þetta inn í bókhaldið en það kostar tíkall fyrir hverja færslu í skýinu. Svo færir maður inn kílómetrana og þá þarf að leiðrétta það og þá koma bakreikningar og allt og það er enn þá meira vesen, í staðinn fyrir að klára þetta bara á bensíndælunni og málið er dautt.“