- Advertisement -

Óþolandi fákeppni í bankaþjónustu


Ragnar Önundarson skrifar:

Til athugunar væri að fela sparisjóðum  póstafgreiðslu eins og víða þekkist erlendis.

Óþolandi fákeppni er í bankaþjónustu eins og á öðrum sviðum viðskiptalífsins. Of mikil völd fylgja fákeppni á þessu sviði. Bankastarfsemi er „hálfopinber“ því unnið er með almannafé, þ.e. sparifé almennings.

Ríkið ætti að leysa alla eignarhluti í bönkunum þremur til sín. Skipta þeim hverjum um sig í annars vegar sparisjóð og hins vegar viðskiptabanka, sem verði seldur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sparisjóðirnir gætu verið með nýju formi, fyrirmyndir eru t.d. í Þýskalandi. Þeir ættu að sinna greiðslumiðlun, ávöxtun sparifjár, íbúðalánum og alvöru atvinnufyrirtækjum á sínu starfssvæði, sem yrði tiltekinn landshluti fyrir hvern og einn. Allir mundu þeir starfa á SV-horninu að auki. Með þessu væri ákalli margra um „samfélagsbanka“ svarað.

Lífeyrissjóðum yrðu seld hlutabréfin í viðskiptabönkunum, eftir að fjárfestingarbankastarfsemi hefði verið tekin út úr þeim og sett í td. einn slíkan sameinaðan. Seðlabanki á ekki að styðja við slíka starfsemi með því að hafa hana í viðskiptum. Sjálfsagt mundu margir sækjast eftir hlutum í honum.

Með þessu yrði áhættunni raðað rétt upp: Seðlabanki hefur viðskiptabanka og sparisjóði í viðskiptum og setur þeim reglur. Viðskiptabankar hafa fjárfestingarbanka í viðskiptum og taka fullgildar tryggingar fyrir lánum til hans. Þannig yrði brask og spákaupmennska ekki á áhættu almennings og undir ströngum aga. Innlán eiga áfram að njóta forgangs fram yfir aðrar kröfur.

Um leið og núverandi bönkum yrði skipt upp yrði séð til þess að allir landshlutar byggju við ásættanlega bankaþjónustu, þó augljóst sé að hraðbankar, heimabankar og kortakerfi hljóti að vera lausnin víða. Til athugunar væri að fela sparisjóðunum póstafgreiðslu eins og víða þekkist erlendis.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: