ruv.is „Það þarf enginn að efast um afstöðu Íslands, og afstaða Íslands er sú sama erlendis og hún er heima, og ég verð að segja að ég var mjög stolt af því hvernig forseti talaði, “ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra um fund Höllu Tómasdóttur forseta með Xi Jingping, forseta Kína í morgun. Þorbjörg sat þennan fund, ásamt sendinefnd Íslands og Höllu í Alþýðuhöllinni í miðborg Beijing í morgun.
„Halla Tómasdóttir var mjög skýr á þessum fundi, til dæmis varðandi afstöðu íslenskra stjórnvalda til grimmilegrar innrásar Rússa í Úkraínu; þetta var nefnt, þannig að það var algjörlega skýrt,“ segir Þorbjörg, þegar hún var spurð um þann mun sem er á afstöðu íslenskra og kínverskra stjórnvalda, til dæmis þegar kemur að almennum mannréttindum, eða allsherjarinnrásar Rússa í Úkraínu.