- Advertisement -

Rafrænn aðgangur að sjúkraskrám

VERA, vefsetur sem veitir einstaklingum öruggan rafrænan aðgang að heilbrigðisupplýsingum sínum, var formlega opnuð af Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra, í gær. Stefnt er að því að innleiðing á landsvísu verði lokið í byrjun næsta árs. Notkun grunnsins mun byggjast á notkun rafrænna skilríkja. Embætti landlæknis í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hugbúnaðarfyrirtækið TM Software þróaði hugbúnaðinn.

Hlutverk VERU er að gera einstaklingum kleift að hafa betri yfirsýn yfir samskipti sín við heilbrigðisþjónustuna og þar með aukið tækifæri til að taka meiri þátt í eigin meðferð. Geta einstaklingar fengið yfirsýn yfir lyfin sín, sótt rafrænt um endurnýjun lyfseðla, séð stöðu lyfseðla í lyfseðlagátt, séð ofnæmi sem hefur verið skráð í sjúkraskrá, bólusetningar, átt örugg rafræn samskipti við heilbrigðisstarfsfólk og bókað tíma rafrænt á heilsugæslustöð.

Helstu markmiðin með VERU eru að:

  • Veita almenningi rafrænan og öruggan aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum.
  • Stuðla að auknu öryggi sjúklinga með því að veita aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum eins og lyfjaupplýsingum og upplýsingum um ofnæmi.
  • Auka þjónustu við almenning í heilbrigðiskerfinu þannig að einstaklingar geti nálgast eigin heilbrigðisupplýsingar án tafar hvar og hvenær sem er, óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar voru skráðar.
  • Gera einstaklinum kleift að eiga í öruggum rafrænum samskiptum við lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn.

Sjá nánar á vef Landlæknis.

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: