- Advertisement -

Saga sex áratuga: Nýfrjálshyggja er sama og stöðnun

Gunnar Smári skrifar:

Hér er samanburður á landsframleiðslu á mann milli Íslands (rauð lína) og Bandaríkjanna (blá lína), sem segja má að sé miðja hagkerfis heimsins á þessum tíma. Þetta nær eins langt aftur og opin gögn Alþjóðabankans bjóða. Við skulum láta þetta segja okkur sögu sex áratuga.

Í upphafi Viðreisnaráratugarins, 1960-70, sem einkenndist af aðlögun frá stríðshagkerfi hafta og hárra tolla yfir í aukna alþjóðaverslun með tilheyrandi samkeppni við innlendan iðnað, var landsframleiðsla á mann á Íslandi 47% af því sem hún var í Bandaríkjunum og við lok hans 49%. Ísland hélt í við þróunina í Bandaríkjunum, en ekki meira en svo.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Atvinnustefna vinstri stjórnarinnar 1971-74 er líklega vanmetnasta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar.

Í upphafi hins róstusama áttunda áratugar, sem einkenndist af vinnudeilum, vinstri stjórnum og pólitískum sviptingum, vaxandi verðbólgu og útfærslu landhelginnar, var landsframleiðsla á mann á Íslandi 49% af því sem hún var í Bandaríkjunum en hún var orðin 118% af landsframleiðslunni vestan hafs í lok þessa áratugar. Atvinnustefna vinstri stjórnarinnar 1971-74 er líklega vanmetnasta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar, skuttogaravæðing og styrking fiskvinnslu víða um land, einkum í formi bæjar- og samvinnuútgerða.

Í upphafi níunda áratugarins, sem einkenndist af glímunni við verðbólgu og miklum pólitískum átökum, var landsframleiðsla á mann á Íslandi 118% af því sem hún var í Bandaríkjunum en hún var 106% við lok þessa áratugar. Tapaða landsframleiðslu má að mestu rekja til fyrri hluta áratugarins þegar verklaus ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen gat sat hjá í þrjú ár, ófær um að sætta ólík sjónarmið innan borðs.

Í upphafi tíunda áratugarins, sem markar innleiðingu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, sölu ríkiseigna og lækkun skatta á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur var landsframleiðsla á mann á Íslandi 106% af því sem var í Bandaríkjunum en var fallin í 88% við lok áratugarins, það vantaði meira en sjöttu hverju krónu í hagkerfið til að halda sömu stöðu og áður hafði verið.

Fyrsti áratugur þessarar aldar er annar áratugur nýfrjálshyggjunnar, byrjar með miklum skattalækkunum til hinna ríku, sölu banka og annarra ríkisfyrirtækja, samdrætti í opinberri þjónustu, niðurskurði alls eftirlits með fjármagns- og fyrirtækjaeigendum og stórfelldum fjárflótta í aflönd. Um tíma gaus landsframleiðsla á Íslandi upp, knúin áfram af lánsfé sem streymdi til landsins, en síðan féll bólan saman og skyldi eftir holu. Í upphafi þessa áratugar var landsframleiðsla á mann á Íslandi 88% af því sem var í Bandaríkjunum en í lok hans var landsframleiðslan á mann á Íslandi 89% af því sem var fyrir vestan haf. Þetta er tími stöðnunar.

Tveir áratugir fyrir nýfrjálshyggju gáfu +116% vöxt á meðan nýfrjálshyggja bauð upp á -16% samdrátt.

Ef við berum tímabilið 1970-90, tímabil eftirstríðsárahagstjórnar, saman við 1990-2010, tímabil nýfrjálshyggju, þá jókst landsframleiðsla á mann á fyrra tímabilinu úr 49% í 106% af því sem var í Bandaríkjunum, meira en tvöfaldaðist á þessum mælikvarða, á meðan að hún féll úr 106% í 89% á nýfrjálshyggjutímanum. Tveir áratugir fyrir nýfrjálshyggju gáfu +116% vöxt á meðan nýfrjálshyggja bauð upp á -16% samdrátt.

Næstur kemur eftir-hrunsáratugurinn, sem hér nær aðeins frá 2010-2019. Sá tími einkenndist af fjárhagslegu uppgjöri, falli krónunnar og auknum ferðamannastraumi í kjölfar þess. Í upphafi tímans var landsframleiðsla á mann 89% af því sem var í Bandaríkjunum en var orðin 103% árið 2019. Ári fyrr, fyrir fall WOW, var þetta hlutfall 116%, líkt því sem hafði verið fyrir nýfrjálshyggjuna. Það sýnir afl aukinnar ferðaþjónustu, sem ætti að geta haft viðlíka áhrif og atvinnuuppbyggingin í sjávarútvegi í upphafi áttunda áratugarins.

Hér er aðeins fjallað um landsframleiðslu á mann. Fram að nýfrjálshyggju var hér meiri jöfnuður en er í dag, en jöfnuður ýtir undir hagvöxt. Hér er heldur ekki tekið tillit til auðlindanýtingar, en bæði aukin ásókn á fiskimiðin á áttunda áratugnum og aukin ásókn ferðamanna á náttúru landsins, var ekki sjálfbær. Það sést hins vegar á þróun mála á níunda áratugnum að takmörkun sóknar hafði ekki umtalsverð áhrif á landsframleiðslu. Það var ekki fyrr en frjálsu framsali á tíunda áratugnum sem Íslendingar drógust aftur úr Bandaríkjamönnum. Þetta ætti að geta orðið lærdómur um hvernig byggja má upp ferðamannaþjónustu, að stýra ásókninni en alls ekki beita aðferðum nýfrjálshyggjunnar og færa örfáum allan nýtingarrétt á náttúru landsins.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: