- Advertisement -

Samherjamálið og afsagnir ráðherra

…mér finnst að við ættum að taka okkur Namibíu til fyrirmyndar í spillingarvörnum í stað þess að tala landið niður…

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir: „Samherjamálið hefur heldur betur dregið dilk á eftir sér. Sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra hafa sagt af sér, sérstök löggæslustofnun um varnir gegn spillingu hefur hafið rannsókn og handtekið sjávarútvegsráðherra og gefið það út að öll rannsóknargögn beri það með sér að stórfelldar mútur, peningaþvætti, skattsvik og spilling hafi átt sér stað. Þeir njóta liðsinnis uppljóstrara sem verndaðir eru með sérstökum lögum um uppljóstraravernd til þess að auðvelda mönnum sem vita af og hafa jafnvel tekið þátt í glæpsamlegu athæfi að stíga fram og aðstoða yfirvöld við að upplýsa glæpastarfsemi og spillingu. Þetta mál er raunar álitið stærsta spillingarmálið sem upp hefur komið í sögu spillingarlögreglunnar og það er litið mjög alvarlegum augum.“

ÖFUGT VIÐ OKKUR HEFUR NAMIBÍA FYRIR LÖNGU LÖGFEST VERND UPPLJÓSTRARA.

Þetta sagði hún á Alþingi fyrr í dag. Og hélt áfram: „Hér er ég ekki að tala um Ísland, virðulegur forseti, heldur Namibíu sem sumir vilja afgreiða sem vanþróað og bláfátækt þróunarríki. Namibía er þó ljósárum á undan okkur Íslendingum í lagalegum og stofnanalegu vörnum gegn pólitískri spillingu eins og frásögn mín hér ber með sér. Öfugt við okkur hefur Namibía fyrir löngu lögfest vernd uppljóstrara og komið á fót stofnun sem sérhæfir sig í að rannsaka spillingarbrot. Hér heima höfum við horft upp á það ár eftir ár að uppljóstraraverndinni er ýtt út af borðinu á þinginu af óljósum ástæðum. Nú eða kannski ekki svo óljósum ef marka má umsögn Samtaka atvinnulífsins sem finnst fyrirliggjandi frumvarp hæstvirts forsætisráðherra ganga allt of langt og auka líkur á misnotkun starfsmanna sem vilja að hefna sín á fyrrum vinnuveitendum. Sömu samtaka og sögðu okkur fyrir ekki svo löngu í umsögn við frumvarp sama ráðherra um skráningu hagsmunavarða eða lobbíista að hér á landi tíðkist ekki spilling, eða með leyfi forseta:

Þú gætir haft áhuga á þessum

…við ættum að taka okkur Namibíu til fyrirmyndar.

„Hér á landi tíðkast það ekki að spilling birtist í því að sterkir sérhagsmunaaðilar nái tangarhaldi á stjórnvöldum og hafi áhrif á þau með viðbrögðum sínum við einstökum ákvörðunum …“

Alla vega. Hér er líka engin þörf talin á því að stofna sérstaka deild um varnir gegn spillingu, öfugt við fyrirmyndir okkar í Namibíu og ríkisstjórnin okkar fæst ekki einu sinni til að fjármagna eftirlitsstofnanirnar okkar almennilega. Forseti. Ég vildi bara koma hingað upp til að segja að mér finnst að við ættum að taka okkur Namibíu til fyrirmyndar í spillingarvörnum í stað þess að tala landið niður eins og sumum háttvirtum þingmönnum og hæstvirtum ráðherrum í þessum sal hefur orðið á að gera.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: