- Advertisement -

Samsköttun hjóna er í raun skattafsláttur til þeirra allra ríkustu

„Er réttlætanlegt að ríkið veiti tekjuhæsta og eignamesta fólki landsins skattafslátt sem engum öðrum í skattkerfinu stendur til boða? Ég segi nei, það er ekki réttlætanlegt.“

Arna Lára Jónsdóttir þingkona Samfylkingarinnar.

Alþingi „Mikil umræða hefur átt sér stað hér í þingsal um skattaívilnanir og samnýtingu skattþrepa. Mörg orð hafa verið látin falla, talað um aðför að fjölskyldunni og annað í þeim dúr, orð sem styðjast ekki annað en við ímyndunarafl þeirra sem tala. Fólk sem reynir að slá pólitískar keilur eða gera tilraun til að fá venjulegt fjölskyldufólk úr millistéttinni til að berjast fyrir hagsmunum einstaklinga í efsta hluta tekjudreifingarinnar. Þetta er gamalkunnugt stef í íslenskri sérhagsmunapólitík þar sem venjulegt fólk er notað sem skjöldur fyrir breiðustu bökin í samfélaginu.

Í þeirri stöðu er gott að geta kallað fram gögn og greiningar. Efnahags- og viðskiptanefnd óskaði nýverið eftir upplýsingum um nýtingu þessarar ívilnunar eftir búsetu og nýtingu úrræðisins í samhengi við fjármagnstekjur og eignir. Þær upplýsingar hafa nú borist. Áður hefur komið fram að sjö tekjuhæstu landsmenn njóta þessa skattafsláttar og að 93,3% fari til fimm efstu í efsta lagi hópsins. Þessi sérstaka skattaívilnun nýtist hlutfallslega best þeim sem búa á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Samkvæmt skattframtölum búa flestir tekjuháir og eignamiklir í þeim sveitarfélögum. Því hefur verið haldið fram að tekjulægri makinn sem nýtur þessarar skattaívilnunar sé oft á tíðum í fæðingarorlofi, í námi eða sé tekjulítill. Staðreyndin er hins vegar sú að tekjulægri makinn er yfirleitt með tekjur yfir meðaltekjum og í flestum tilfellum í næstefstu tekjutíund. Gögnin sýna líka skýrt að þeir sem njóta samnýtingarinnar eru eignameiri og hafa mun hærri fjármagnstekjur en aðrir hópar.

Svona geta gögn og greiningar gagnast stjórnmálamönnum. Sú spurning sem við þingmenn ættum að spyrja okkur sjálf er: Er réttlætanlegt að ríkið veiti tekjuhæsta og eignamesta fólki landsins skattafslátt sem engum öðrum í skattkerfinu stendur til boða? Ég segi nei, það er ekki réttlætanlegt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: