- Advertisement -

SDG: Forðumst hinar myrku hliðar

Ávarp Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skrifar áramótavarp í Morgunblaðið, líkt og forsvarsmenn allra annarra flokka á Alþingi, gera. Sigmundur stöðvar nokkuð við árangur eigin ríkisstjórnar og finnur að þeim sem ekki taka undir með honum og öðrum sem mæra árangur ríkisstjórnarinnar.

Hér fara nokkrir kaflar úr ávarpi Sigmundar Davíðs:

Árangur með skynsamlegri stefnu

„Árangur næst með því að fylgja skynsamlegri stefnu og taka réttar ákvarðanir. Þess vegna er svo mikilvægt að við metum hvaða stefna hefur reynst vel og hvaða ákvarðanir hafa orðið til heilla. Þannig getum við gert meira af því sem vel reynist og minna af hinu. En til þess að það sé hægt þarf að viðurkenna árangurinn í stað þess að láta umræðuna alla snúast um þau verkefni sem enn á eftir að leysa og gera þau að ástæðu til að hverfa frá því sem virkar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vinna ríkisstjórnarinnar undanfarið ár, og reyndar allt þetta kjörtímabil hefur sannarlega skilað árangri. Atvinnuleysi er nú mun minna en í öðrum Evrópulöndum, skuldir heimilanna hafa lækkað um tugi prósenta og hlutfall skulda af ráðstöfunartekjum er nú töluvert lægra en í mörgum nágrannalöndum okkar. Verðbólga hefur haldist stöðug og hefur verið minni en nokkru sinni áður á þessari öld. Þrátt fyrir mestu launahækkanir um árabil sýna spár að takast muni betur að halda aftur af verðbólgunni á næstu árum en áður hafði verið áætlað.“

Undantekningar vekja athygli

„Þegar árangur næst á mörgum sviðum beinist athyglin að undantekningunum. Þær vekja meiri athygli en ella einmitt vegna þess að þær skera sig úr en það þýðir um leið að þær eru orðnar viðráðanlegri en áður. Látum það verða okkur hvatningu til að gera enn betur. Látum árangurinn, hið góða, leiða okkur áfram fremur en neikvæðni og svartsýni.“

Afmarkaður og hávær hópur

„Eins undarlegt og það er virðist afmarkaður en hávær hópur fólks eiga erfitt með að sætta sig við góðar fréttir. Jákvæð þróun vekur hjá honum gremju, hún er litin hornauga og tortryggð á allan mögulegan hátt. Þetta er sá hópur fólks sem getur ekki sætt sig við að jákvæðir hlutir gerist ef þeir gerast ekki í krafti hinnar einu „réttu“ hugmyndafræði.“

Úr skugga neikvæðni og niðurrifs

„Við þurfum, sem samfélag að komast úr skugga neikvæðni og niðurrifs í öllum sínum myndum. Við þurfum að læra að meta þau gæði sem við búum við og þann árangur sem við höfum náð og láta það verða okkur hvatningu til að gera enn betur. Þeir sem stundum eru kallaðir hinn þögli meirihluti verða að þora að láta ljós sitt skína og óttast ekki hramm nátttröllanna. Þau þrífast bara í myrkri. Upplýsta umræðu þola þau ekki.“

Árangur næst með samheldni

„Þessar aðgerðir og ótal margar fleiri hafa gert íslenskt samfélag vel í stakk búið til að nýta tækifæri ársins 2016 og þeirra sem á eftir koma. En árangurinn veltur á því að við stöndum saman um að forðast hætturnar og nýta úrræðin. Árangurinn veltur líka á því að við höldum okkur við þær leiðir sem virka. Samfélög búa yfir miklu afli sem nýta má vel eða illa. Forðumst hinar myrku hliðar þess afls og nýtum björtu hliðarnar til hins ýtrasta. Þær eru sterkari og skila meiri árangri fyrir alla.“

Fyrirsögn sem og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: