- Advertisement -

Segir Stefán Vagn fara með rangt mál

„Það vekur athygli að háttvirtur þingmaður var sjálfur í ríkisstjórn þegar þessi verkefni voru kynnt og ákveðin en þá var ekki staðið við þau með fjárhagslegum stuðningi.“

Eydís Ásbjörnsdóttir.

„Ég verð að bregðast við máli háttvirts þingmanns Stefáns Vagns Stefánssonar sem hér hefur stigið fram af miklum ákafa í yfirlýsingum um að uppbyggingu verknámsskóla sé slaufað. Það er einfaldlega rangt. Hann fer með rangt mál,“ sagði Samfylkingarþingmaðurinn Eydís Ásbjörnsdóttir.

„Nú hefur annar háttvirtur þingmaður Framsóknarflokksins tekið undir þann málflutning. Líkt og kemur skýrt fram í fjáraukalögum, og kom skýrt fram í svörum hæstvirtur mennta- og barnamálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í gær, þá er um að ræða hliðrun fjárheimilda milli ára. Ástæðan er sú að framkvæmdir eru ekki komnar á það stig að unnt sé að ráðstafa fjármagni nú þegar. Fjármagnið er og verður áfram til staðar og verkefnin halda áfram,“ sagði Eydís.

„Það vekur athygli að háttvirtur þingmaður var sjálfur í ríkisstjórn þegar þessi verkefni voru kynnt og ákveðin en þá var ekki staðið við þau með fjárhagslegum stuðningi. Engin fjárhagsleg vissa var fyrir hendi þrátt fyrir hátíðlegar undirskriftir viljayfirlýsinga vítt og breitt um landið, oftar en ekki í aðdraganda kosninga. Það er óábyrg stjórnsýsla að ferðast um landið með lekan penna, skrifa undir skjöl og vekja vonir án þess að fjármunir séu tryggðir. Nú hefur ný verkstjórn tekið við og mun vinna þessi verkefni af ábyrgð með raunhæfum áætlunum og því fjármagni sem þarf til. Það er ekki ábyrg nálgun að búa til óvissu og ótta með upphrópunum í þingsal, sérstaklega þegar litið er til þess að háttvirtur þingmaður var formaður fjárlaganefndar Alþingis árin 2021–2024 þegar málin hefðu getað verið tryggð í gegnum fjárlög. En það var ekki gert, bara alls ekki. Í stað þess að veitast að núverandi hæstvirtum mennta- og barnamálaráðherra, sem vinnur þetta af yfirvegun og festu, hefði verið nær fyrir háttirtan þingmann að líta í eigin barm og rýna í ákvarðanir og ábyrgð þeirra sem áður sátu við borðið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við skulum halda áfram með ábyrgð og alvöru að byggja upp verknám á Íslandi. Það er ein undirstaða atvinnulífs okkar til framtíðar sem þar liggur undir,“ sagði Eydís Ásbjörnsdóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: