- Advertisement -

Sekir fá vægari refsingu

Dómsmál „Dómarar þurfa nú að fjalla um tvöfalt fleiri alvarleg sakamál en áður. Þá þurfa  dómarar að kveða upp úrskurði á rannsóknarstigi mála fimmfalt oftar en áður. Þrátt fyrir þessa miklu fjölgun úrlausnarefna hefur héraðsdómurum ekki fjölgað nema um fimm frá setningu aðskilnaðarlaganna 1989, úr 38 í 43. Þessi óverulega fjölgun er tímabundin og helst rökstudd með auknum málafjölda tengdum slitum gömlu bankanna. Fjölgun dómara er því ekki ætlað að bregðast við langri þróun stigvaxandi álags í sakamálum.“

Þetta er bein tilvitnun í rannsókn sem Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður hefur unnið og var til umfjöllunar í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni á páskadag. Fréttir liðinna daga hefur komið fram að vegna þess hversu langan tíma einstaka mál hafa tekið, ýmist í rannsókn lögreglu, í meðferð saksóknara eða í dómi hafa sakborningar verið dæmdir til vægari refsinga. Nýleg dæmi eru til um allt að fimm ár hafi liðið frá að lögreglurannsókn hófst og þar til dómur gekk í héraði.

Hvað veldur?

Margar ástæður kunna að vera að baki hversu mjög refsimálum hefur fjölgað. Reimar Pétursson segir að versturlönd, og þar með Ísland, hafi háð stríð gegn glæpum. „Í Bandaríkjunum skar Richard Nixon til dæmis upp herör gegn glæpum í kosningabaráttunni 1968 og beitti sér í kjölfarið fyrir margvíslegum aðgerðum í þessu skyni. Eftirmenn hans hafa gengið sífellt harðar fram. Sömu þróunar hefur gætt í Evrópu þótt ekki sé þar gengið jafn langt.“

Reimar kemst að því að þessi stefnumótun stjórnmálanna hafi óhjákvæmileg áhrif á störf dómstóla og að dómarar eru ekki ofurmenni- eða konur. Álag hafi áhrif á þá eins og aðra.

„Bandarískar rannsóknir staðfesta að þar í landi þjást dómarar af streitu. Ýmsar ástæður valda. Dómarar verða fyrir streitu vegna málafjölda. Dómarar verða fyrir streitu þegar fjölmiðar fjalla um málin. Dómarar verða fyrir streitu þegar almenningur hefur sterkar skoðanir á málum. Dómarar verða fyrir streitu ef málflytjendur sýna þeim ekki viðeigandi virðingu. Dómarar verða fyrir streitu ef málflytjendur takast harkalega á. Og – síðast en ekki síst – dómarar finna fyrir streitu vegna eigin fjárhagslegrar stöðu.“

Þetta álag á dómara er ekki einskorðað við Bandaríkin. Sem dæmi má nefna að í lok árs 2012 voru sagðar fréttir af undirskriftum 700 dómara af 2.500 í Hollandi undir yfirlýsingu þar sem þeir kvörtuðu undan gríðarlegu álagi og staðhæfðu að mál fengju vegna þess ekki viðeigandi athygli.

Á sama við um íslenska dómara

„Ætla má að líku gegni um íslenska dómara. Þeir glíma við mikinn fjölda mála, fjölmiðlar fjalla um málin, almenningur hefur sterkar skoðanir á þeim, þeir búa við lakari kjör en kollegar þeirra á einkamarkaði, málflytjendur takast hart á og, ég skal ekki segja, kannski sýna þeir dómurum ekki viðeigandi virðingu í öllum  tilvikum. Dómarar hér á landi hljóta því að finna fyrir streitu eins og annars staðar, þótt sjálfsagt beri menn álagið misjafnlega og sumir reyndar hreint ótrúlega vel.

Afleiðingar álags

Reimar segir að líkur á mistökum lækna séu taldar aukast eftir því sem álag eykst. Læknir sem vinnur of langan vinnutíma og sinnir of mörgum sjúklingum mun óhjákvæmilega gera mistök. Smám saman hættir hann að framkvæma ítarlegar rannsóknir á sjúklingum sínum nema þegar við blasa alvarlegri sjúkdómseinkenni. Og spyr hví skyldi aukið álag hafa önnur áhrif á dómara? Er ekki hættan sú að við aukið álag leiði dómarar hjá sér atriði sem hefðu fengið skoðun við betri aðstæður?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: