- Advertisement -

Sigurður Ingi fær á baukinn

Leyfum fólki sjálfu að ráða örlögum sínum.

Óli Björn.

„Enginn hefur burði eða þekkingu til að skera úr um það hvaða stærð og hvaða fjöldi er hagkvæmastur í sveitarfélögum á Íslandi. Það hefur enginn þá þekkingu enda er talan 1.000 bara falleg tala með þremur núllum.“ Þetta sagði stjórnarþingmaðurinn, Óli Björn Kárason, á Alþingi þegar hann ræddi fyrirætlan Sigurðar Inga Jóhannssonar sveitarstjórnarráðherra, um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga.

„Mér finnst dálítið hart að þingmenn skuli ekki leggja við hlustir þegar kemur að ákalli fámennra sveitarfélaga sem mörg hver standa bara ágætlega, þar sem íbúarnir eru ánægðir með sinn hag og vilja ekki miklu breyta. Það getur vel verið að sá tími komi í framtíðinni að íbúar viðkomandi sveitarfélags taki þá ákvörðun að hefja viðræður við annað sveitarfélag um sameiningu eða samvinnu en það verður gert á þeirra forsendum en ekki forsendum löggjafans, ekki á forsendum excel-manna sem vinna í ráðuneytunum og telja sig hafa komist að hinni endanlegu niðurstöðu um hagkvæmustu stærð eða fjölda í sveitarfélögum á Íslandi. Slíkt er ekki hægt.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þannig verður árangurinn bestur og þannig verður ánægjan mest.

Óli Björn hafði fleiri rök: „Ég ætla ekki að ræða um hversu fráleitt það getur stundum verið, bara út frá landfræðilegum ástæðum, að þvinga fram sameiningar. Það er allt í lagi að þingheimur hafi í huga að það er ávísun á vandræði og óánægju þegar reynt er að þvinga fólk til að gera eitthvað sem það vill ekki gera. Það er hins vegar ávísun á árangur ef einstaklingarnir fá að taka sínar eigin ákvarðanir út frá eigin hagsmunum og fjölskyldna sinna. Þannig verður árangurinn bestur og þannig verður ánægjan mest.“

„Lofum fólki að taka ákvörðun um eigin framtíð. Ég veit að þegar til lengri tíma er litið mun það skila okkur fram á veginn. Það mun styrkja sveitarfélögin.“

„Hvernig ætla menn að réttlæta það í þessum þingsal að taka sjálfsákvörðunarrétt af þeim sem búa á Grenivík, Skagaströnd eða í Vopnafirði? Leyfum fólki sjálfu að ráða örlögum sínum. Ég er sannfærður um að ef menn treysta fólki, ef fólki eru gefin tækifæri til að taka ákvarðanir sem skipta það máli án hótana, þvingana og ofbeldis, verður ánægjan meiri og menn komast örugglega að réttri niðurstöðu, ekki að okkar mati kannski en að mati þeirra sjálfra. Það eru íbúarnir sjálfir sem eiga að ráða,“ sagði Óli Björn.Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: