- Advertisement -

„Sjálfur stend ég hér í jakkafötum“

Nú eru dagarnir; bolludagur, sem er orðinn að bolluhelgi ef ekki bolluviku; sprengidagur, sem kom upphaflega hingað á miðöldum með Hansakaupmönnum og þýskum biskupum, „Sprengtag“, og snýst í kaþólsku um að stökkva vígðu vatni á fólk og hluti, samanber þýsku sögnina „sprengen“, að dreifa. Þarna er sem sagt tilskipun frá þáverandi Evrópusambandi orðin að ofátsdegi. Við höfum breytt því í ofátsdag á Íslandi,“ sagði Guðmundur Andri Thorsson á Alþingi í dag.

„Svo er það náttúrlega skemmtilegasti dagurinn af þeim öllum, öskudagur. Í eðlilegu árferði er bærinn fullur af krökkum í skrýtnum búningum að syngja fyrir nammi. Sjálfur stend ég hér í jakkafötum sem hefðu þótt skrýtin búningur á mér lengst af ævinnar og þó að ég sé ekki þessa stundina að syngja fyrir nammi beinlínis má kannski toga svolítið túlkunina og segja sem svo að komandi kosningabarátta sé nokkurs konar langdreginn öskudagur. Þá koma stjórnmálamenn fyrir augu og eyru almennings og fara með einhvers konar prógramm og eru í einhvers konar búningi og fá að launum einhvers konar nammi. Þá, virðulegi forseti, verða flestir flokkarnir búnir að steypa yfir sig skikkjum jafnaðarstefnunnar og látast vera fulltrúar jafnréttisbaráttunnar og berjast fyrir réttlátri skiptingu þegar þeir tala um það hvernig þeir vilji loka skattaskjólum þó að þessa stundina séu ríkisstjórnarflokkarnir einmitt að leggja niður starf skattrannsóknarstjóra og stroka Panama endanlega út af landakortinu. Þeir munu tala um barnabætur þó að staðreyndin sé sú að hér á landi eru barnabætur lægri en á Norðurlöndum og frekar litið á þær sem fátæktarstyrk en réttindi foreldra. Þeir munu harma skerðingar á almannatryggingakerfinu og þeir munu harma fátækt þó að þeir neiti að tryggja lágmarksafkomu atvinnuleitenda. Þannig má lengi telja. Þá munu kjósendur þurfa að þekkja sauðina frá höfrunum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: