- Advertisement -

Skuldum minna en borgum meira

Ef við gerum það ekki köllum við yfir þjóðina viðvarandi verðbólgu.

„Ekkert ríki er ofar og í þeim hópi eru ríki sem skulda margfalt meira en íslenska ríkið. Þetta er ósjálfbær staða sem við verðum að bregðast við,“ sagði varaformaður, Daði Már Kristófersson á þingi fyrr í dag.

„Ég vil gera að umtalsefni alvarlega stöðu ríkisfjármála á Íslandi. Við stöndum nú frammi fyrir því í umræðu hér á þessu hausti að samþykkja fjárlög með verulegum halla. Þetta er alveg sérlega mikið áhyggjuefni. Ástæða þess hve mikið áhyggjuefni það er er sú að staðan í íslensku efnahagslífi kallar ekki á innkomu ríkisins til að styðja við innlenda eftirspurn heldur þvert á móti aðhald til að byggja undir hagvöxt til lengri tíma. Á tímum Covid var eðlilegt að ríkið stigi inn. Það var eðlilegt að ráðist yrði í opinberar fjárfestingar eða þeim flýtt. Það var eðlilegt að ráðnir væru nýir ríkisstarfsmenn og ríkið lét ekki sitt eftir liggja. Ríkisstarfsmönnum fjölgaði um 4.100 á sama tímabili og starfsfólki fækkaði í atvinnulífinu almennt,“ sagði Daði.

„Nú er komin upp ný staða. Atvinnuleysi er komið niður í það stig sem það er til lengri tíma á Íslandi og eðlilegt er. Það er þensla á Íslandi. Það er viðvarandi verðbólga sem mun halda áfram ef ríkið styður ekki við tilraunir Seðlabankans til þess að ná tökum á því ástandi með því að draga úr eigin umsvifum. Það sem við þurfum að gera er að standa í lappirnar. Ef við gerum það ekki köllum við yfir þjóðina viðvarandi verðbólgu sem við höfum mýmörg dæmi um í sögunni að skilar sér í engu öðru en að drepa niður hagvöxt á Íslandi og draga úr lífskjörum til lengri tíma. Það er erfitt og það er andstyggilegt að þurfa að segja nei við útgjöldum en í dag er staðan þannig að Ísland er það ríki innan OECD sem er með hæstu vaxtabyrðina sem hlutfall af ríkisútgjöldum. Ekkert ríki er ofar og í þeim hópi eru ríki sem skulda margfalt meira en íslenska ríkið. Þetta er ósjálfbær staða sem við verðum að bregðast við.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: