- Advertisement -

„Slík stjórnmál eru froða“

Gunnar Smári skrifar:

Hér eru þrjár auglýsingar frá síðustu þingkosningum, 2017, týpískar síðustu auglýsingar flokkanna fyrir kosningar. Hin síðari ár eru þetta myndir af formönnunum, eins og þingkosningar séu kosning milli flokksformanna.

Þetta hefur ekki alltaf verið svona, eins og sjá má af dæmum frá 1991 af auglýsingum flokkanna síðasta dag fyrir kjördag og á kjördaginn sjálfan. Þetta er eins og innlit inn í aðra stjórnmálamenningu þar sem málefni voru kynnt, tengsl flokka við verkalýðshreyfingu, erindi þeirra við unga kjósendur, stefnuskrá, allir frambjóðendur jafnt o.s.frv. Og þegar auglýsingarnar voru flennistórar andlitsmyndir forystufólks, þá voru það auglýsingar sem beint var að kjósendum í tilteknu kjördæmi. Fólkið í auglýsingunum var fólkið í baráttusætunum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Er þetta góð þróun? Það held ég að enginn haldi fram, að stjórnmálin séu betri ef þau eru lík American Idol-vali á milli formanna, hver er bestur, reffilegastur, mesti mannasættir, ákveðnastur, viðkunnanlegastur. Það vita allir að slík stjórnmál eru froða sem á ekkert skylt við lýðræðislega mótun samfélagsins.

En þetta er ekki aðeins birtingarmynd róttækrar einstaklingshyggju nýfrjálshyggjunnar, upphafningar á hlutverki leiðtoga á kostnað hreyfingar, heldur líka afleiðing af fjármögnun stjórnmálaflokka beint úr ríkissjóði. Í slíku fyrirkomulagi er forystan sjálf fólkið sem nær í monnípeningaglásina, ekki grasrótin eða einstök kjördæmaráð. Kynning flokkanna hefur því orðið miðstýrðari og snúist mest um hugðarefni forystunnar sjálfrar, sem því miður er forystan sjálf. Peningunum er því ekki eytt til lýðræðislegs starfs heldur upphafningar formannanna.

Það held ég að ekki nokkur sála telji að sé góð þróun. Formennirnir sjálfir myndu ekki einu sinni viðurkenna að þetta sé gott mál. Það má vera að þeim líki þetta vel, en þeir myndu aldrei viðurkenna það. Vegna þess að enn sem komið er þykir svona sjálfumgleði og sjálfshól skammarlegt.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: