- Advertisement -

Snúa áliti umboðsmanns á hvolf

„En þessu eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins ósammála í dag, tala eins og ómögulegt sé að selja banka án þess að brjóta stjórnsýslulög.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

„En þessu eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins ósammála í dag, tala eins og ómögulegt sé að selja banka án þess að brjóta stjórnsýslulög.“

„Nú er rúmur sólarhringur liðinn frá því að fjármálaráðherra greindi þjóðinni frá afsögn sinni vegna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um lögbrot hans við sölu á Íslandsbanka. Á þessum eina sólarhring hafa nánast allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins mótmælt niðurstöðu umboðsmanns og segjast ósammála henni, ganga um eins og niðurstaðan hafi komið öllum stórkostlega á óvart. Stórkostlega óvænt að fjármálaráðherra sé vanhæfur þegar einkahlutafélag í eigu föður hans er meðal kaupenda í lokuðu útboði sem hann ber ábyrgð á,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn.

„Hér eru engin geimvísindi að baki. Málið er einfalt. En allan þann tíma sem vinnubrögð fjármálaráðherra við Íslandsbankasöluna hafa verið gagnrýnd hefur forsætisráðherra t.d. staðhæft að undirbúningur fjármálaráðherra hafi verið í samræmi við lög en það hafi síðan verið bara framkvæmdin hjá öllum öðrum sem hafi klikkað. Og meira að segja eftir að umboðsmaður tilkynnti að hann væri að skoða málið hélt Katrín Jakobsdóttir áfram að tala svona. Yfirleitt passa ráðherrar sig á að tjá sig ekki um mál á meðan þau eru til skoðunar hjá eftirlitsaðilum, en í þessu máli gilti eitthvað annað þrátt fyrir að í bréfi umboðsmanns til fjármálaráðherra beri spurningar hans augljóslega með sér alvarleika málsins. Í bréfum umboðsmanns til fjármálaráðherra minnir hann fjármálaráðherra sérstaklega á hæfisreglur stjórnsýslulaga, segir að reglunum sé ætlað að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið við ákvarðanir verði niðurstaðan og stuðla að því að almenningur geti treyst stjórnvöldum. Umboðsmaður talar um að hann hafi ítrekað bent á mikilvægi þess að traust ríki um það þegar stjórnvöld ráðstafa eignum ríkisins. En þessu eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins ósammála í dag, tala eins og ómögulegt sé að selja banka án þess að brjóta stjórnsýslulög,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

„Það er liðinn sólarhringur og þingmenn hafa verið mjög snöggir að snúa staðreyndum málsins á hvolf, áliti umboðsmanns á hvolf. Eru hinir ríkisstjórnarflokkarnir sammála og samferða Sjálfstæðisflokknum á þessari vegferð?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: