- Advertisement -

Sósíalistar stærri en Miðflokkur og Flokkur fólksins

Sósíalistar standa vel í miðju logninu á undan storminum, sem kosningabaráttan eftir verslunarmannahelgi mun verða. Þessum grasrótarsamtökum hefur tekist að ná í gegnum umræðuna, sem hefur verið einokuð af þingflokkunum átta í fjölmiðlum. Þetta er ekki ólíkt því sem gerðist í borgarstjórnarkosningunum 2018. Þá tókst Sósíalistum að brjótast í gegnum um umræðu átta þingflokka og sjö annarra nýrra framboða og fá meira fylgi en Framsóknarflokkurinn, VG, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins. Í nýrri könnun MMR eru Sósíalistar yfir Miðflokki og Flokki fólksins. Næsti flokkur fyrir ofan er Viðreisn og þar fyrir ofan VG.

Það sem er markverðast í könnun MMR er að Samfylkingin virðist vera hætt að hrapa. Nú braggast flokkurinn aðeins á kostnað VG og Miðflokks, eða að því er virðist. Miðflokkurinn er hársbreidd frá því að þurrkast út, sem er náttúrlega stór frétt. Ríkisstjórnin er fallin, með aðeins 31 þingmann. Ástæðan er fall VG.

Ríkkisstjórnin þarf að drepa Miðflokk og Flokk fólksins til að lifa

Könnun:

Þar sem bæði Flokkur fólksins og Miðflokkurinn standa tæpt getum við leikið okkur af því að fella þessa flokka af þingi til að sjá hvað gerist.

Þar sem bæði Flokkur fólksins og Miðflokkurinn standa tæpt getum við leikið okkur af því að fella þessa flokka af þingi til að sjá hvað gerist. Ef Flokkur fólksins félli fyrst niður fyrir 5% þröskuldinn myndi ríkisstjórnin komast í 33 þingmenn með nýjum þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Þriðji þingmaðurinn færi til Sósíalista, sem væru þá með fjóra þingmenn.

En þessi ríkisstjórn væri tæp. Í fyrsta lagi vegna þess að VG væri minnsti stjórnarflokkurinn og samkvæmt allri hefð því óhæfur til að leiða ríkisstjórn. Og VG fær ekkert út úr þessu stjórnarsamstarfi nema forsætisráðuneytið, hinir flokkarnir vilja ekki gefa honum nein stefnumál. Forsendan fyrir veru VG í stjórninni væri því farin. Auk þess leggur enginn í stjórnarsamstarf með VG nema gera ráð fyrir að 2-5 þingmenn gefist upp á því að éta skít alla daga og yfirgefi flokkinn á kjörtímabilinu. 33 þingmanna meirihluti er of tæpur með VG innanborðs.

Fellum þá Miðflokkinn af þingi. Þá bætist einn Sjálfstæðisflokksmaður við ríkisstjórnina en hinir tveir þingmenn Miðflokksins færu á Pírata og Viðreisn. Ríkisstjórnin væri þá komin með 34 þingmenn á móti 29 þingmönnum stjórnarandstöðu Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Sósíalista. Aftur má spyrja um seigluna í sjö manna þingflokki VG, líklega samsettur af Katrínu, Svandísi, Guðmundi Inga og síðan fjórum öðrum nýliðum á þingi, en grasrót flokksins þurrkaði út alla almenna þingmenn í forvali flokksins. Ef tveir hinna nýju þingmanna yfirgefa skútuna, sem héldi áfram að sigla stefnu Sjálfstæðisflokksins, væri meirihlutinn kominn niður í einn mann og hver stjórnarþingmaður hefði neitunarvald. Líka Brynjar Níelsson.

Þetta er von ríkisstjórnarinnar í dag. Að Flokkur fólksins og Miðflokkurinn þurrkist út og að forystu VG takist að halda saman þingflokk í stjórnarsamstarfi í fyrsta skipti í sögunni. Líklega er enginn nema Katrín Jakobsdóttir og hennar þrengsti hringur já-fólks sem selur sér að slíkt sé mögulegt. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eru þegar farin að leita að öðrum kostum.

Hægrinu dreymir um ríkisstjórn Davíðs og Halldórs

Könnun:

Þetta er draumur hægrisins, að halda áfram starfi ríkisstjórn Davíðs og Halldórs (sem Þorgerður Katrín átti sæti í), sem innleiddi stórkostlegar skattagjafir til hinna ríku, einkavæddi bankana, Símann og önnur ríkisfyrirtæki, veikti allt eftirlit, jók gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu og útvistaði og einkavæddi grunnkerfi samfélagsins.

Forysta þessara flokka er byrjuð að telja í hreina hægri stjórn, m.a. vegna þess að Sigurður Ingi Jóhannsson er hægri sinnaðasti formaður Framsóknar að Sigmundi Davíð einum slepptum. Og munar þar miklu í næsta mann. Samkvæmt könnun MMR hefur Sjálfstæðisflokkur og Framsókn 24 þingmenn. Með klofningsframboði Sjálfstæðisflokksins, Viðreisn, fer þetta upp í 30 þingmenn. Og ef Miðflokkurinn, klofningsframboð Framsóknar, helst á lífi eru komnir 33 þingmanna meirihluti. Ef Miðflokkurinn koðnar hins niður er von þessara flokka að fylgið færist yfir á Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Ef við fellum Miðflokk og Flokk fólksins af þingi erum við, samkvæmt MMR, komin með ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar með Þorgerði Katrínu sem utanríkisráðherra og Sigurð Inga sem fjármála með 34 þingmenn á móti 29 þingmanna stjórnarandstöðu Samfylkingar, Pírata, VG og Sósíalista.

Þetta er draumur hægrisins, að halda áfram starfi ríkisstjórn Davíðs og Halldórs (sem Þorgerður Katrín átti sæti í), sem innleiddi stórkostlegar skattagjafir til hinna ríku, einkavæddi bankana, Símann og önnur ríkisfyrirtæki, veikti allt eftirlit, jók gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu og útvistaði og einkavæddi grunnkerfi samfélagsins. Sigurður Ingi selur Framsóknarfólki þessa stefnu sem hina nýju samvinnuhugsjón, að færa allt vald og afl hins lýðræðislega vettvangs út á hinn svokallaða markað, þar sem hin ríku ráða öllu. Og er með plön um að einkavæða vegakerfið. Ríkisstjórn Davíðs og Halldórs tók við 1995 og hefur meira og minna verið völd síðan ef undan eru skilin árin 2009-13 og 2016. Þetta eru 21 ár af 26 síðustu árum. Ef draumur hægrisins rætist bætast við fjögur ár og árið 2025 verður þessi nýfrjálshyggjustjórn búin að sitja í 25 af 31 ári. Guð blessi Ísland.

Ef Katrín Jakobsdóttir hefði ekki gengið með VG inn í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins væru þetta átakalínur stjórnmálanna; annars vegar hægrið, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn, sem þyrftu á því að halda að sótsvarta hægrið í Framsókn héldi völdum innan flokknum. Og hins vegar Samfylking, VG og Sósíalistar, sem þyrftu á því að halda að félagshyggju-Píratar héldu nýfrjálshyggju-Pírötunum áhrifalitlum innan flokksins. Þetta er hin klassíska skipting stjórnmálanna, í hægri og vinstri. Og þegar átökin harðna, eins og öllum er ljóst að mun gerast á næstu árum, þá mun miðjan skiptast upp og færast annað hvort til hægri eða vinstri.

Kjörtímabilið: VG og Miðflokkur tapa, Sósíalistar stækka

Í frétt mbl má sjá þingmannaskiptinguna. Ég enda því á kjörtímabilinu, hvað hefur gerst síðan í kosningunum 2017? Þetta er fylgisbreytingin samkvæmt nýrri könnun MMR.

 • Upp
 • Sósíalistar: +5,6 prósentustig
 • Píratar: +3,0 prósentustig
 • Viðreisn: +2,7 prósentustig
 • Framsókn: +2,2 prósentustig
 • Samfylkingin: +1,0 prósentustig
 • Niður
 • Sjálfstæðisflokkur: –0,6 prósentustig
 • Flokkur fólksins: –1,8 prósentustig
 • Miðflokkurinn: –5,7 prósentustig
 • VG: –6,2 prósentustig

Hvaða saga er þetta? Forysta VG og Miðflokkinn er að fá dóm kjósenda fyrir frammistöðuna á kjörtímabilinu. Það er síðan fyrst og fremst Sósíalistar sem bæta við fylgi sitt.

-gse


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: