- Advertisement -

Sósíalistar vilja fríar auglýsingar hjá RÚV

Berist til útvarpsráðs

Ágæta útvarpsráðsfólk

Eins og ykkur er kunnugt ákváðu stjórnmálaflokkarnir sem nú eru á þingi að styrkja sjálfa sig fjárhagslega með því að færa á kjörtímabilinu 2.848 milljónir króna úr ríkissjóði í eigin sjóði, þar með talda kosningasjóði sína. Þessi ákvörðun skaðar lýðræðið þar sem hætta er á að erindi nýrra grasrótarframboða almennings muni drukkna í auglýsingum þeirra flokka sem hafa skammtað sér þessa styrki. Styrkirnir eru því í raun ekki til að örva lýðræðið heldur til að verja völd og stöðu þeirra flokka sem fyrir eru.

Fjölmiðlum, og þá sérstaklega Ríkisútvarpinu, ber að verja lýðræðið og heilbrigða umræðu og gæta þess að sú mynd sem þeir færa almenningi af samfélaginu sé sönn en ekki skekkt af ægivaldi peninganna. Og þessi skylda hverfur ekki þótt þeir flokkar sem hafa komist í aðstöðu til sjálftöku úr ríkissjóði misnoti þá stöðu. Skyldan er þvert á móti ríkari. Því verr sem stjórnvöld fara með völd sín því ríkari kröfu ber að gera á fjölmiðla að þeir spyrni við.

Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokks Íslands fer því þess á leit við útvarpsráð og yfirstjórn Ríkisútvarpsins að flokkurinn fái úthlutað auglýsingatíma hjá miðlum fyrirtækisins eins og meðaltal þess sem flokkarnir á alþingi kaupa, í það minnsta eins og sá flokkur sem auglýsir minnst kaupir af Ríkisútvarpinu. Fyrirkomulagið getur verið þannig að í upphafi hverrar viku fá flokkurinn úthlutað þeim tíma sem jafngildir notkun hinna flokkanna í vikunni á undan og í kosningavikunni til viðbótar þeim tíma sem flokkarnir hafa pantað í auglýsingatímum miðla Ríkisútvarpsins.

Það mun ekki skaða Ríkisútvarpið á nokkurn hátt að verða við þessari beiðni, heldur þvert á móti styrkja það sem ábyrga stofnun. Ólíklegt er að auglýsingatímar verði uppseldir svo auglýsingar Sósíalistaflokksins munu ekki neinum tekjum burt. Það er því Ríkisútvarpinu að tjónlausu að verða við þessari beiðni. Það er hins vegar mikilvægt fyrir samfélagið að veita viðnám sjálftöku stjórnmálaflokkanna og tilraunum þeirra til að verja eigin völd á kostnað jafnræðis og lýðræðis.

Með kærri kveðju og fyrirfram þökk
f.h. framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins
Gunnar Smári Egilsson, formaður stjórnar


afrit sent útvarpsstjóra og auglýsingastjóra RÚV
afrit einnig sent á fjölmiðla


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: