- Advertisement -

Staðreyndir eru staðreyndir

Og þess vegna: Já, Sigmundur Davíð – í guðanna bænum – tölum um staðreyndir. Og horfumst í augu við þær. Og gæti jafnvel komið að því að við ákvæðum að taka ábyrgð á þeim?


Karl Ágúst Úlfsson skrifar:

Staðreyndir eru staðreyndir eru staðreyndir. Þannig er það nú. Og í rauninni er ég 100% sammála Sigmundi Davíð: Það er tími til kominn að við ræðum staðreyndir málsins. Ef við höfum ekki verið að ræða þær fram að þessu, þá skulum við reyna að átta okkur á því hverjar þær eru. Og hvað vitum við?

Þú gætir haft áhuga á þessum
Karl Ágúst Úlffson.

Staðreynd númer 1: Þingmenn Miðflokksins sátu á Klausturbar á vinnutíma sínum þann 20. nóvember 2018. Ræðum það.

Staðreynd númer 2: Tveir þingmenn Flokks fólksins sátu við sama borð og fengu hin og þessi gylliboð frá formanni Miðflokksins og öðrum viðstöddum ef þeir hlypust úr eigin flokki og gengju til liðs við Miðflokkinn. Ræðum það.

Staðreynd númer 3: Þessi hópur þingmanna drakk ómælt áfengi og gerðist æ háværari. Er eitthvað að því? Örugglega ekki.

Staðreynd númer 4: Þingmenn Miðflokksins töluðu niðrandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið, um samþingmenn sína, einkum konur. Einnig hentu þeir gaman að nafngreindu fötluðu og samkynhneigðu fólki á sinn einstaka hátt. Eigum við ekki að ræða það?

Staðreynd númer 5: Þingmenn Miðflokksins sökuðu samstarfskonu sína á þingi um alvarlega kynferðislega áreitni og jafnvel ofbeldi. Hmm… Eitthvað til að ræða?

Staðreynd númer 6: Þingmenn Miðflokksins hældu sér af því að hafa gert pólitísk hrossakaup um sendiherrastöður við formann Sjálfstæðisflokksins, auk þess sem þeir lýstu snilldarbrögðum sínum við skipun í sendiherrastöður sem ekki vöktu athygli vegna þess hvernig að þeim var staðið. Eigum við að þora að ræða það?

Staðreynd númer 7: Þessar umræður þingmannanna á Klaustur bar voru hljóðritaðar og birtar almenningi. Búið að ræða það nóg, ekki satt?

Staðreynd númer 8: Allir umræddir þingmenn Miðflokksins sitja ennþá á Alþingi. Engum umræddra þingmanna þykir hann eða hún hafa brotið alvarlega af sér eða brugðist trausti kjósenda sinna. Ræðum það.

En staðreyndir eru staðreyndir eru staðreyndir.

Og Miðflokksmenn hafa sannarlega sett fram kenningar sem stangast á við þær staðreyndir sem hér eru tilfærðar. En kenningar eru ekki staðreyndir fyrr en búið er að sanna þær. Þess vegna skulum við kalla þær kenningar þangað til annað kemur í ljós.

Bára Halldórsdóttir.

Kenning númer 1: Bára Halldórsdóttir hafði undirbúið upptökurnar á Klaustur bar fyrirfram. Það var sem sagt engin tilviljun að hún skyldi vera stödd þar á hárréttum tíma. Verði þetta sannað kollvarpar það engu af staðreyndunum sem hér á undan eru taldar.

Kenning númer 2: Bára Halldórsdóttir var dulbúin sem erlendur ferðamaður og var þar af leiðandi að villa á sér heimildir. Fyrir vikið voru þingmennirnir á barnum allsendis grandalausir og létu því móðan mása eins og enginn væri morgundagurinn. Verði þetta sannað kollvarpar það engu af staðreyndunum sem hér á undan eru taldar.

Kenning númer 3: Hljóðupptakan sem kom fyrir almenningseyru er fölsuð og klippt sundur og saman. Verði þetta sannað kollvarpar það öllum staðreyndum sem hér á undan eru taldar. Þá stöndum við frammi fyrir samsæri sem er stærra en við getum nokkurn tíma gert okkur í hugarlund. Og í rauninni stöndum við þá frammi fyrir tækni sem ekkert okkar hefur ennþá áttað sig á að væri til.

Veltum þessu fyrir okkur í fullri alvöru:

„Gæti ég látið Bergþór Ólason kalla Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra skrokk sem typpið hans dygði loksins í?“

Er virkilega hægt að leggja fólki í munn hvað sem er með stafrænni klippitækni? Gæti ég, ef mér sýndist svo, látið Sigmund Davíð segja að Páll Magnússon væri ekki einu sinni fær um að stjórna húsfélagi? Gæti ég látið Bergþór Ólason kalla Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra skrokk sem typpið hans dygði loksins í? Og með sömu tækni, gæti ég búið til mannlýsinguna „húrrandi klikkuð kunta“ og heimfært hana upp á Ingu Sæland, formann Flokks fólksins? Kannski er það hægt, en þangað til það verður sannað verður það tæplega staðreynd.

Jörðin var einu sinni flöt. Og það var staðreynd. En svo gerðist eitthvað. Ísland var einu sinni algjörlega laust við spillingu. En svo gerðist eitthvað. Og það sem gerðist var að allt í einu birtust okkur staðreyndir sem við höfðum áður kosið að horfa framhjá.

Og þess vegna: Já, Sigmundur Davíð – í guðanna bænum – tölum um staðreyndir. Og horfumst í augu við þær. Og gæti jafnvel komið að því að við ákvæðum að taka ábyrgð á þeim?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: