- Advertisement -

Stjórnsýsla með hangandi hendi


KJ: Við erum að fara hægar af stað en ég hefði viljað.

Eftir lestur beggja dagblaða landsins stendur eftir að stjórnsýslan á í vanda. Flest virðist verða látið reka á reiðanum.

Dæmi 1: „Ég undrast hversu langan tíma það tekur ráðuneytið að taka afstöðu til tillagna sem við lögðum fram fyrst í mars og svo í september,“ segir Benedikt Bogason, formaður Dómstólasýslunnar. Þetta er úr Fréttablaðinu. Vandi Landsréttar á að vera öllum ljós. Ekki síst þingliði Sjálfstæðisflokksins. En hvað?

„Aðspurð segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ákvörðun um fjölgun ekki hafa verið tekna. Málastaða dómsins sé enn til skoðunar og dómhald hafi verið skipulagt út árið. Þrettán dómarar dæmi nú við réttinn.“ Þetta er úr sömu frétt.

Það er barasta ekki hægt að umbera hvernig haldið er á málum. Ráðherrann nýi er enn að skoða málastöðu Landsréttar. Fæst í einu símtali. Vonlaus frammistaða.

Alþingi:
Þá hafa fimm af 49 málum sem boðuð voru í október verið lögð fram.

Dæmi 2: „Aðeins ellefu af þeim 29 málum sem ríkisstjórnin hugðist samkvæmt þingmálaskrá leggja fram í september eru fram komin á Alþingi. Þá hafa fimm af 49 málum sem boðuð voru í október verið lögð fram. Að auki hafa verið lögð fram tvö stjórnarmál sem ekki var að finna á þingmálaskrá.“ Þetta er líka úr meira lesna dagblaðinu, Fréttablaðinu.

 „Það er talað um bætta áætlanagerð, aukið gagnsæi og meiri skilvirkni þingsins. Það hefst ekki með svona vinnubrögðum,“ segir Oddný Harðardóttir í Fréttablaðinu.

„Það vakna pólitískar spurningar um hvort þetta geti verið út af ósætti innan ríkisstjórnarinnar eða hvort málin stoppi í þingflokkunum. Eða hvort vinnubrögðin séu einfaldlega svona léleg.“

Og Katrín Jakobsdóttir segir á sama stað: „Við erum að fara hægar af stað en ég hefði viljað enda stefna ríkisstjórnarinnar að jafna álagið yfir þingveturinn. Það er þó að rætast úr þessu. Töluvert af málum var afgreitt úr ríkisstjórn á föstudag og von er á fleirum í vikunni.“

Ari Trausti Guðmundsson:
Það mun taka tölu­verðan tíma að taka efnið sam­an.

Dæmi 3: „Heims­minja­skrá UNESCO hef­ur óskað eft­ir nán­ari skýr­ing­um á köf­un í Silfru ásamt til­heyr­andi starf­semi í Þing­vallaþjóðgarði,“ segir í minna lesna dagblaðinu, Mogganum. „Sá und­ir­bún­ing­ur gæti tekið nokkr­ar vik­ur eða mánuði að hans sögn,“ segir í fréttinni. Þá er talað við Ara Trausta Guðmundsson, þingmann og formann Þingvallanefndar. Og svo:

„Það mun taka tölu­verðan tíma að taka efnið sam­an, köf­un hef­ur verið leyfð í Silfru í næst­um 20 ár. Þjóðgarður­inn á Þing­völl­um er á heims­minja­skrá fyr­ir menn­ing­ar­minj­ar fyrst og fremst en ekki nátt­úru. Nú þurf­um við að taka sam­an vandað svar, senni­lega fjöl­marg­ar blaðsíður, þar sem við för­um yfir þetta lið fyr­ir lið.“

Hvað er hægt að segja? Marga mánuði? Er manninum sjálfrátt? Eða er ástæðan sú að frestur sé á illu bestur? Þá í öllum þeim dæmum sem eru tekin bara í dag af silagangi íslenskrar stjórnsýslu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: