- Advertisement -

Stórtíðindi, segir Villi Birgis

Vilhjálmur Birgisson skrifaði:
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag urðu að mínu áliti stórtíðindi, en í þessum óundirbúna fyrirspurnatíma spurði Logi Einarsson sjávarútvegsráðherra um þann gríðarlega verðmun á milli Íslands og Noregs á makríl. En eins og flestir vita þá hefur Verkalýðsfélag Akraness ítrekað kallað eftir óháðri opinberri rannsókn á þessum gríðarlega verðmun.

En orðrétt sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra:

„Við höfum rætt það innan sjávarútvegsráðuneytisins, sérstaklega í tengslum við athugasemdir sem komu frá Verkalýðsfélagi Akraness að efna þar til sérstakrar vinnu sem ég vænti að ég geti kynnt fljótlega á næsta ári, en það er komið í ákveðið ferli, en það miðast við að þar verði óháð rannsókn sem leiði í ljós einhverjar skýringar á þessum verðmun sem hefur verið hér á Íslandi. Ég get tekið undir að mikilvægi þess að gerð verði hlutlæg athugun sem leggi þá niðurstöðu fyrir Alþingi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness fagna þessu innilega en ítreka að hér þurfa algerlega óháðir aðilar að koma að þessari rannsókn og hún þarf að vera hafin yfir allan vafa og að gætt sé algers hlutleysis og þessi óháða rannsóknarnefnd þarf að hafa víðtækar heimildir til gagnaöflunar.

Ég vil minna alla á að ég lagði slíka tillögu fram í kjaraviðræðunum við útgerðarmenn árið 2017 sem byggðist á að skipa óháða 5 manna rannsóknarnefnd sem hefði það hlutverk að rannsaka hví þessi gríðarlegi verðmunur er á uppsjávarafla milli Íslands, Noregs og Færeyjar. Það er skemmst frá því að segja að útgerðarmenn sem áttu sæti í þessari samninganefnd sturluðust yfir þessari tillögu og höfnuðu henni alfarið.

Nú hefur þessi barátta Verkalýðsfélags Akraness þó skilað því að sjávarútvegsráðuneytið hefur í hyggju að skipa þessa óháðu rannsóknarnefnd en ég ítreka að sú nefnd þarf að vera hafin yfir allan vafa um algert hlutleysi.

Ég legg til að við í sjómannaforystunni og Alþingi fáum aðkomu að því að velja þessa nefnd og setja henni starfsskilyrði þannig yrði komið veg í fyrir tortryggni hvað hlutleysi varðar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: