„Við í Framsókn erum róttækur umbótaflokkur. Þetta eru róttækar umbætur á þessu kerfi sem við styðjum en útfærslan skiptir þar öllu máli.“
Sigurður Ingi Jóhansson.
Alþingi „Nú veit háttvirtur þingmaður auðvitað og kann alla forsögu þessa máls, enda var hann í mínu starfi þegar það var upprunalega lagt fram eða alla vega áformin um það. Markmiðið með lögunum er ekki að hækka álögur heldur að dreifa þeim með sanngjarnari hætti en verið hefur,“ sagði Daði Már Kristófersson þegar hann og Sigurður Ingi Jóghannsson skiptust á skoðunum.
„Eins og fram kom í framsögu minni þá hefur þróun á eldsneytisnotkun ökutækja gert það að verkum að það er orðinn mikill munur á því hvað ökumenn eldri bifreiða og ökumenn yngri bifreiða greiða fyrir notkun á vegakerfinu þó að hún sé sú sama hjá þeim öllum. Einnig veit háttvirtur þingmaður að þetta gjaldfrelsi aftanívagna eða óveruleg gjaldtaka af þeim er auðvitað ekki eðlileg í ljósi þess að þau slíta vegakerfinu eins og aðrir. Mér er þess vegna skapi næst að spyrja háttvirtan þingmann hvort hann sé ósammála því að aftanívagnar greiði fyrir notkun sína á vegakerfinu,“ sagði Daði Már.
Sigurði Inga var ekki skemmt: „Ég bið forseta um að setja ofan í við hæstvitan fjármálaráðherra sem svarar ekki spurningum en beitir hérna spurningum úti í sal. Að sjálfsögðu finnst okkur öllum eðlilegt að það sé greitt fyrir notkunina. Ég spurði hins vegar, af því að ég veit að þessi munur verður umtalsverður strax á öðru ári: Mun flutningskostnaður út á land hækka? Kemur til greina að innleiða þetta í fleiri skrefum? Kemur til greina að hækka flutningsjöfnunarsjóð á móti?“
Formaður Framsóknar var ekki hættur:
„Við í Framsókn erum róttækur umbótaflokkur. Þetta eru róttækar umbætur á þessu kerfi sem við styðjum en útfærslan skiptir þar öllu máli. Annar þáttur sem ég vildi líka flagga hérna, sem mér finnst vera mikilvægt og mun leggja fram þingsályktunartillögu, sem ég hef reyndar lagt fram áður og fyrrverandi háttvirtur þingmaður Elsa Lára Arnardóttir tók síðan við í þó nokkur ár, um að fela einmitt hæstvirtum fjármálaráðherra að koma fram með skattaafslátt til þeirra sem þurfa að aka um langan veg til og frá vinnu. Það er hópur, sérstaklega úti á landi, sem mun þurfa að borga mun meira fyrir þessa breytingu heldur en ella, til þess að jafna leikinn. Ég bið hæstvirtan fjármálaráðherra um að svara spurningunum.“
…innilega afsökunar frá dýpstu hjartarótum…
Fjármálaráðherra brást við:
„Ég bið háttvirtan þingmann Sigurð Inga Jóhannsson innilega afsökunar frá dýpstu hjartarótum að hafa ekki svarað spurningunni, en ein mínúta er skammur tími eins og hann veit. Ég held að það sé full ástæða til þess og beini því til efnahags- og viðskiptanefndar að fara vandlega yfir það hvaða áhrif þessi breyting mun hafa á flutningskostnað. Við erum þó sammála um, enda þingmaðurinn kurteisari heldur en ég og svaraði minni spurningu, að það er eðlilegt að greitt sé fyrir notkun á vegakerfinu. Ég vil hins vegar vísa til föðurhúsanna þeirri fullyrðingu háttvirts þingmanns að það sé verið að hækka ferðakostnað úti á landi. Þvert á móti að þá sýnir greinargerðin með frumvarpinu, sem og þeir útreikningar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur lagt fram, að svo er ekki,“ sagði Daði Már Kristófersson.