- Advertisement -

Þegar prinsessan hitti draumaprins allra kvenna

En ÞKRG veit betur, enda stendur hún með sjálfri sér.

Halldór Árni Sveinsson skrifaði:

Upp á Skipaskaga hef ég oft komið. Á þar reyndar hálfan frændgarð í föðurætt, allt hið gjörvilegasta fólk. Var þar oft í erindum fyrir framsækið sundfélag staðarins, í mörg ár setti ég upp heila útvarpsstöð eina helgi í desember, en Skagamenn státa af mjög frambærilegu þáttagerðarfólki, sem tók virkan þátt í þessu framtaki og fjáröflun. Kynntist þar t.d. Óla Palla sem heldur betur hefur haft áhrif á vöxt og virðinu samtímatónlistar. Þá kom ég aukinheldur oft með diskótekið að spila fyrir fyrirtæki og félög, og lengi spilaði ég á hótelinu hjá Kobba heitnum. Þarna var indælis úrval af meyjum, eins og segir í gömlum danslagatexta, miklar drottningar innan um lagvísa hróka alls fagnaðar eins og Robba heitinn diskó, og fleira bráðskemmtilegt fólk. En engar prinsessur (og nú mun einhver sjálfsagt móðgast), alla vega ekki eins og í ævintýrum H.C. Andersen. Auðvitað bráðfallegar stúlkur (sem maður hafði hvort eð er engan séns í), en prinsessa kom ekki af Skaganum held ég fyrr en stúlkan með langa nafnið, tók sér prinsessunafnbót við Sjallahirðina, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, skulum kalla hana ÞKRG til plásssparnarðar, en hún er engu minni stofnun í íslensku samfélagi en t.d. KPMG, svo önnur stytting sé nefnd.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hún hefur nýlega tekið upp merkan stjórnunarstíl, sem hún kallar að standa með sjálfri sér.

ÞKRG vasast í ýmsu, þurfti t.d. að taka að sér aukaráðherrastól vegna að því virðast mætti, landslægs skepnuskapar og skilningsleysis hins alræmda Evrópusambands. Hún hefur nýlega tekið upp merkan stjórnunarstíl, sem hún kallar að standa með sjálfri sér, og byggir á nýju prinsippi, sem sé að halda ótrauð áfram með lagasetningu, sem margir óttast að sé bæði skaðleg og hriplek. Þannig þýðir orðatiltækið að standa með sér eitthvað allt annað en þegar Guðríður Þorbjarnardóttir gekk til Róms hér áður fyrr, eða Salka Valka bauð útgerðaraðlinum byrginn í den.

Þannig vill ÞKRG taka úr sambandi helftina af reglugerðum og eftirlitsaðgerðum sem lúta að málaflokkum sínum, og skellir skollaeyrum við aðvörunarorðum hófsamari aðila sem benda á þær aðstæður sem sköpuðust í aðdraganda hins svokallaða hruns. En ÞKRG veit betur, enda stendur hún með sjálfri sér. Þá er hún að klastra saman frumvarpi sem hún telur að stöðva muni ólöglega starfsemi smálánafyrirtækja hér á landi. Breki Karlsson hinn skeleggi formaður Neytendasamtakanna, sem dregið hefur vagninn í þessari baráttu, við einstakt áhuga- og getuleysi ríkisstjórnarinnar, hefur bent á að frumvarpið haldi ekki vatni og hámarksokur á vexti sé alltof hátt. En ÞKRG veit betur, enda stendur hún með sjálfri sér, auk þess sem hún telur sennilega að of íþyngjandi sé að lækka innheimtuþakið, sem er víst það brjálæðislega hæsta í allri Evrópu.

En þessi landlausu vegabréfalausu börn eiga hvergi heima – ja nema í Dyflinarpappírum ráðuneytisins.

Ekki stóð hún heldur með vegalausum landflótta börnum sem hingað sækja um vernd. Telur sjálfsagt, eins og forveri hennar í stól dómsmálaráðherra, að það sé betra að þessi börn sitji, en standi. Sitji á hakanum eða sitji í flugvél til síns heima. En þessi landlausu vegabréfalausu börn eiga hvergi heima – ja nema í Dyflinarpappírum ráðuneytisins. Kannski er veik von um að hin Sjallaprinsessan taki á þessu máli, þegar hún er búin að koma stóru hugsjónum sínum í verk. Sem eru; Brennivín í búðir, Brennivín á netið, Brennivín í sumarbúðir (barna og kirkjunnar?) og svo framv.

En á meðan forsetahjónin brugðu sér í opinbera heimsókn á Snæfellsnes, brá Þórdís Kolbrún sér í opinbera heimsókn austur á firði, og vakti mun meiri athygli, enda fátt annað í fréttum svo sem. Þar hitti hún heimsfrægan hjartaknúsara og draumaprins flestra kenna á aldrinum átta til áttræðs. Að sögn er Georg þessi Clooney svo mikill sjarmur að konur á milli tektar og tvítugs, og alla leið upp úr, fá fiðring í tánum og skjálfta í hnjánum, svo notuð sé skráð hughrif Hörpu Sjafnar Hermundardóttur í garð Kristins Steins Styrkárssonar Proppé, en þau voru með allt á hreinu eins og alþjóð veit. Og stóðu með sér, líkt og Þórdís Kolbrún.

Ekki er tekið fram í fréttinni hvort fundur þeirra Þórdísar Kolbrúnar og Georgs Clooney hafi átt sér stað í því sögufræga húsi Valaskjálf, sem stundum var nefnt Læraskjálf, en af fréttinni má ráða að helsta vörumerki hjartaknúsarans, seiðandi augnaráð og ómótstæðilegt bros, hafi ekkert virkað á prinsessuna íslensku. Hún hafi ekki fundið til neins titrings í hjánum, stóð bara keik með sjálfri sér. Pís of keik.

Að hennar sögn varð því Georg bara léttur, og hún létt á móti.

Að hennar sögn varð því Georg bara léttur, og hún létt á móti. Fislétt. Eina sem skyggði á fölskvalausa gleðina af þessum fræga fundi, sem nú þykir marka sögu lands og þjóðar dýpra en hinn svokallaði Kópavogsfundur, var sú leiða staðreynd, að þar sem sjarmurinn var í gervi (en ÞKRG væntanlega ekki?) mátti hún ekki taka sjálfu af þessu stærsta augnabliki lífs síns. Er fésbókin sannarlega fátækari vegna skorts á þessu einstaka hrekkjarvökumómenti, en ráðherrann fær að sjálfsögðu stjörnu í kladdann. Og enga smástjörnu!

En ónefndur bögubósi mun hafa hent þessum fram- og afturpörtum í kosmóið af þessu tilefni. Þorir þó ekki að standa með sjálfum sér og gangast við leirburðinum;

Létt í fasi, lífs þó reynd,
látbragð augna barði.
Gjörvileg með gerviseind
á Georg Clooney starði.

Engar sjálfur, ekki má,
eilífð geyma á fési.
Sigur hálfur, stjörnu fá.
Sætur þessi pési.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: