- Advertisement -

Þeir ljúga því

Fátækt fólk í Reykjavík er að bugast vegna þess að það á ekki fyrir leigunni og getur ekki keypt.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Eftir því sem auðkýfingar soga meira til sín af auðæfum, þess meira fjölgar heimilislausum. Þetta er hinn grímulausi sannleikur nútíma kapítalisma sem flestir stjórnmálaflokkar í heiminum aðhyllast. Og allir stjórnmálaflokkar á Alþingi Íslendinga. Í augum íslenskra þingmanna er kapítalismi náttúrulögmál, alveg sama á hverju gengur. Heimilislausum á Íslandi hefur fjölgað um 95% undanfarin ár og harkan í heiminum gagnvart heimilislausum er að verða meiri. Í Nevada fylki í Bandaríkjunum hefur heimilislausum og fátækum verið sagt stríð á hendur og þeirra bíður fangelsi ef þeir finnast sofandi á götum, í ræsum, göngum eða slíkum stöðum. Að vera fátækur og heimilislaus er nú orðinn glæpur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Allt tal stjórnvalda í Bandaríkjunum um að í stjórnartíð Trumps hafi fátækum og heimilislausum fækkað er lygi. Það sama á við um Ísland. Bjarni Ben segist alltaf vera að gera meira og meira fyrir fátæka. Hann lýgur því. Og Dagur B. Eggertsson segist vera að gera svo mikið fyrir þá sem verst hafa það. En hann lýgur því. Hann vill ekki einu sinni borga láglaunakonunum, sem vinna fyrir hann, kaup sem þær geta lifað á. Honum finnst líka í lagi að jaska þeim út og láta þeir ganga í störf faglærðra í leikskólum borgarinnar.

Árið 2017 voru 349 manns ­skráð­ir ut­an­­garðs og/ eða heim­il­is­­laus­ir í borg­inn­i, en það eru 95 pró­­sent fleiri en þegar sam­­bæri­­leg mæl­ing var ­síð­ast ­gerð árið 2012.

Hér höfum við tölur sem lýsa ástandinu í húsnæðismálum á Íslandi. Sam­kvæmt skýrslu Vel­ferð­ar­ráðu­neyt­is­ins og Íbúða­lána­sjóðs hefur heimilislausum fjölgað gríðarlega. Árið 2017 voru 349 manns ­skráð­ir ut­an­­garðs og/ eða heim­il­is­­laus­ir í borg­inn­i, en það eru 95 pró­­sent fleiri en þegar sam­­bæri­­leg mæl­ing var ­síð­ast ­gerð árið 2012. Í skýrslu Vel­ferð­ar­sviðs Reykja­vík­ur­borgar um hagi utan­garðs­fólks í Reykja­vík árið 2017 kom fram að af þeim 349 sem skráðir eru utan­garðs voru 153 ein­stak­lingar sagðir búa við ótryggðar aðstæð­ur, 118 vor­u ­sagð­ir gista í gisti­skýli og 76 ein­stak­lingar voru sagðir haf­ast við á göt­unni að ein­hverju ­leyti. Jafn­framt vor­u 97 ein­stak­lingar að ljúka stofn­ana­vist og 58 ein­stak­lingar voru skráðir í lang­tíma­bú­setu­úr­ræð­i. Tæp­lega helm­ingur þeirra sem skil­grein­ast utan­garðs í Reykja­vík eru á aldr­inum 21 til 40 ára, sam­kvæmt skýrsl­unn­i. Flestir hafa verið heim­il­is­lausir lengur en í 2 ár, eða um 40 pró­sent. Í könn­unni kemur fram að meiri­hluti utan­garðs­fólks er af íslenskum upp­runa eða um 86 pró­sent árið 2017.

Fátækt fólk í Reykjavík er að bugast vegna þess að það á ekki fyrir leigunni og getur ekki keypt. Þetta er löngu ljóst en nútíma kapítalismi ræður ríkjum í Borginni, enda trúa hinir svokölluðu “jafnaðarmenn“ þar blint á kapítalismann og hafa því gert auðmönnum og áhættusæknum peningamönnum kleift að hirða til sín lóðir og byggingar til að braska með. Skítt með hina sem lepja dauðann úr skel vegna húsnæðisskorts. Og þessir 350 sem eru heimilislausir geta bara étið það sem úti frýs. Nú talar Dagur um að verið sé að byggja minni íbúðir. Ennþá þarf fátækt fólk að bíða og ekkert ljóst hvernig þetta mun koma út þegar slíkar minni íbúðir koma loksins á markað.

Kapítalisminn hefur sýnt sitt rétta andlit á undangegnum áratugum. Hann hefur leitt af sér þvílíkan ójöfnuð að annað eins á sér engin fordæmi. Og hann hefur leitt til hamfarahlýnunar sem á sér heldur engin fordæmi. Hann stefnir að eyðileggja lífið sem við þekkjum á jörðinni. Samt skulu menn aðhyllast kapítalismann í nútímanum. Samt skulu þeir líta á hann sem nokkurs konar náttúrulögmál. Sem besta kerfi í heimi. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja að menn sem segjast vera „jafnaðarmenn“ skuli vera í þessum klúbbi með auðmönnum og auðkýfingum sem njóta ávaxtanna af kapítalisma nútímans. Menn sigla þarna undir fölsku flaggi. Ef ekki er vart hægt að tala um annað en heimsku.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: