- Advertisement -

Þinghóll: Forseti er maður orða sinna

Ræða sú sem forsætisráðherra flutti er í rauninni ekki mikils virði.

„Öfugt við það sem mætti ætla af fúkyrðaflaumi sem yfir forseta hefur gengið á undanförnum dögum er forseti maður orða sinna og stendur við það sem upplýst var í umræðum um þessi mál að þingmannamál sem tengdust Covid-faraldrinum myndu fá sams konar forgang og stjórnarfrumvörp,“ sagði þingforsetinn Steingrímur J.  Sigfússon á Alþingi i dag,

Tilefnið var ræða Gunnars Braga Sveinssonar. „Hér er eitt mál á dagskránni, ég ætla að vona að það verði ekki sami hamagangur og var hér fyrir nokkrum dögum þegar við sáum mál á dagskránni sem sannarlega er ekkert tengt þessum Covid-faraldri, en við erum komin með enn eitt slíkt mál sem er þessi Matvælasjóður, mál sem var hafnað í þinginu fyrir nokkrum mánuðum, þar sem á að sameina tvo sjóði og búa til einn. Hér er það sett í eitthvert Covid-dulargervi til að reyna að koma því í gegnum þingið í lítilli umræðu, en það er einfaldlega ekki þannig. Þetta mál og þeir fjármunir sem á að bæta við — ég ætla að þakka ríkisstjórninni fyrir að ætla að bæta við nokkur hundruð milljónum þegar kemur að nýsköpun og öðru í landbúnaði. Það eru til ýmsir ferlar fyrir þessa fjármuni í dag, t.d. í þeim sjóðum sem eru til, AVS-sjóðnum og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Svo er annað sem við erum með og heitir Landbúnaðarklasinn. Við erum með fleiri aðila sem geta tekið við þessum fjármunum og komið þeim út. Til þess þarf ekki að fara með í gegnum þingið núna þingmál sem er í raun búið að hafna (Forseti hringir.) hér á þingi. Mér finnst þetta, herra forseti, ekki alveg í lagi og ekki miðað við það sem hefur rætt varðandi skipulag þingstarfanna.“

Katrín Jakobsdóttir sat ekki kyrr: „Hér er verið að leggja til frumvarp um nýjan sjóð. Hugsunin er ekki að þetta fari í gegnum gömlu sjóðina af því að hér eru ný markmið líka sem er verið að setja, til að mynda hvað varðar aukna samþættingu. Við eigum ekki að horfa á matvælaframleiðslu á Íslandi sem aðskilin mál, landbúnað og sjávarútveg, heldur eigum við að horfa til nýsköpunar í heild sinni.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Til þess þarf ekki þetta frumvarp.

Gunnar Bragi kom aftur í ræðustól: „Ræða sú sem hæstvirtur forsætisráðherra flutti er í rauninni ekki mikils virði, vil ég segja, í því sem við erum að ræða hér. Ég var bara að benda á það að hér er komið með þingmál sem var hafnað af þinginu fyrir nokkrum mánuðum um breytingar á tveimur sjóðum í skjóli þess að þetta sé Covid-tengt mál. Það er ekki þannig. Ef menn lesa frumvarpið sjá þeir meira að segja í greinargerðinni að fyrst og síðast sé verið að sameina þessa sjóði en það er hægt að tengja það þessum Covid-faraldri. Ég er ekki á móti því að settir séu peningar í nýsköpun í landbúnaði eða að styrkja hann en það eru þegar til góðir sjóðir, góðar leiðir og góð verkefni sem geta tekið við þessum peningum. Til þess þarf ekki þetta frumvarp.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: