- Advertisement -

Þjófar eru ekki rokkstjörnur

Gunnar Smári skrifar:

Eitt einkenni niðurbrots hins lýðræðislega valds á tímum nýfrjálshyggjunnar er að nú telja auðkýfingar, og stór hluti almennings einnig, að þeir séu líklegri til að ná árangri í náttúruvernd í krafti auðs síns en almenningur með baráttu sinni innan hins pólitíska valds (sem auðkýfingar hafa beygt undir sig).

Það sama á við um geimferðaáætlanir, en bæði Elon Musk og Jeff Bezos reka sín plön til bjargar 0,0001% mannkyns sem á mestan auð en opinber stjórnvöld lýðræðisríkja hafa gefist upp fyrir geimferðaáætlunum vegna kostnaðar (í kjölfar veikingar ríkissjóða vegna skattalækkunar til hinna ríku; þ.m.t. Musk og Bezos).

Þú gætir haft áhuga á þessum
Gunnar Smári:
„Þjófar eru þjófar sem munu halda áfram að ræna ykkur þar til þið stöðvið þá.“

Og það sama á við baráttu gegn malaríu og öðrum sjúkdómum sem herja á fólk í hitabeltinu; auðkýfingum í leit að skattaafslætti hefur verið falið að stýra þeirri baráttu þrátt fyrir glæsilegan árangur af opinberri heilbrigðisstefnu á síðustu öld, þegar almannavaldið tók völdin af auðkýfingum og tryggði meginþorra alþýðu á Vesturlöndum aðgengi að heilbrigðisþjónustu og varði fólk gegn heilsuspillandi vörum auðkýfinganna og vondum aðstæðum í verksmiðjum þeirra.

Þegar Notre Dame brennur elta fjölmiðlar yfirlýsingar auðkýfinga um harm þeirra og gjafmildi til ráðamanna sem hafa gefið eftir skatta hinna ríku og gráta af þakklæti að þeir séu tilbúnir að láta brot af ávinningi sínum til verka sem þeir sjálfir telja gott PR, sem kallað er; að þeir geti notað hluta af þýfi sínu til að kaupa sér velvild af þeim sem þeir rændu.

Svona er veröldin orðin öfugsnúin og ýkt undir auðræðinu sem fyrir löngu er orðið að þjófræði. Stórtækustu þjófarnir eru ríkastir; þeir sem ræna fólk arðinum af vinnu þess og níðast mest á náttúrunni. Og þeir eru ekki aðeins ríkastir heldur eigum við líka að trúa því að þeri einir geti náð árangri í nokkrum hlut; við erum svo spillt af hugmyndum sem kenna að aðeins sá sem stelur miklu sé treystandi fyrir miklu. Því er sagt þegar laxinn þarf vernd: Getum við ekki fundið einhvern þjóf til að bjarga laxinum? Eða þegar kanna þarf geiminn: Nú væri gott ef einhver stórþjófur fengi áhuga á þessu. Og þegar við mætum á sjúkrabeð deyjandi barns í fátæku landi: Því miður, kæra barn, okkur hefur enn ekki tekist að vekja áhuga neins þjófs á lífi þínu, þú mátt deyja okkar vegna.

Þjófar eru ekki rokkstjörnur sem munu bjarga heiminum. Þjófar eru þjófar sem munu halda áfram að ræna ykkur þar til þið stöðvið þá.






Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: