Það var þvert á móti Sjálfstæðisflokkurinn sem Heiðar Már hefur líklega glæpst til að styðja oftar en hann kærir sig um að muna sem beitti sér opinberlega gegn olíuleit – og vinnslu.
Össur Skarphéðinsson.
Hér á eftir fer nýjasta færsla Össurar Skarphéðinssonar, síðatsta ritstjóra Alþýðublaðsins, fyrrum umhverfisráðherra þó fátt eitt sé upptalið.
Heiðar Már Guðjónsson sem er virtur og stórhuga athafnamaður sem ma. hefur skrifað bók um Norðurslóðir, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið að tekjur af olíuvinnslu á Drekasvæðinu gætu staðið undir kostnaði við að reka íslenska ríkið í 20 ár. Vísast er það rétt hjá honum.
Málið er steindautt á þessu augnabliki, engin áform eru um frekari olíuleit, enda Norðmenn búnir að banna hana sín megin á Drekasvæðinu. Það varð niðurstaða hrossakaupa í reykfylltum bakherbergjum þegar Ernu Sólberg, formanni Hægri flokksins í Noregi, mistókst að mynda meirihlutastjórn um árið og varð að semja um atkvæðakaup við tvo smáflokka í norska þinginu til að verja minnihlutastjórn sína vantrausti.
Það var þvert á móti Sjálfstæðisflokkurinn…
Kristilegi Þjóðarflokkurinn var falur gegn því að ríkisstjórn Hægri flokksins lýsti yfir að Noregur léti af öllum áformum um olíuvinnslu þeirra megin á Drekasvæðinu. En illmögulegt – þó ekki ómögulegt – er að vinna olíu á svæðinu Íslandsmegin, nema báðar þjóðirnar hafi samvinnu um uppbyggingu þess.
Íslendingar voru þá nýbúnir að ná fáránlega hagstæðum samningum við Norðmenn um skiptingu olíunnar á Drekasvæðinu, ef hún fyndist, sem gerði málið enn eftirsóknarverðara í augum íslenskra áhugamanna um olíuleit.
Í samtalinu við Viðskiptablaðið virðist Heiðari Má áfram um að gera Jóhann Pál, sem nú fer með málefni loftslags og umhverfisverndar, að blóraböggli vegna þess áhugaleysis og deyfðar sem nú ríkir um Drekasvæðið. Það er hins vegar fjarri sanni.
Það var þvert á móti Sjálfstæðisflokkurinn sem Heiðar Már hefur líklega glæpst til að styðja oftar en hann kærir sig um að muna sem beitti sér opinberlega gegn olíuleit – og vinnslu. Það var rækilega í gadda slegið í upphafi stjórnarsáttmála þeirrar þriggja flokka ríkisstjórnar – hinnar óvinsælustu sem setið hefur – þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var hryggjarstykkið. Bjarni Ben lýsti sáttmálanum raunar sem þeim merkasta sem nokkru sinni hefði verið gerður.
Svo eindregið studdi Sjálfstæðisflokkurinn bann við olíuleit og -vinnslu að Guðlaugur Þór Þórðarsson lagði fram sérstakt frumvarp á Alþingi þar sem lagt var til fortakslaust bann við öllu sem tengdist olíuleit. Ekki aðeins á Drekasvæðimu heldur náði bannið til allrar efnahagslögsögunnar.
En kanski leggur enginn í Guðlaug Þór…
Guðlaugi Þór var olíubannið slíkt kappsmál, að hann lagði frumvarpið fram ekki aðeins einu sinni, heldur tvisvar. Bannið náði ekki aðeins til leitar og vinnslu – heldur var öllum vísindamönnum bannað að rannsaka allt það sem viðkom olíu innan lögsögunnar.
Jafnsanngjarn maður sem Heiðar Már hlýtur að vilja fremur veifa réttu tréi en röngu og er væntanlega þegar miður sín yfir að hafa haft kornungan ráðherra, Jóhann Pál, fyrir rangri sök. Við dyggir lesendur Heiðars og Viðskiptablaðsins bíðum alla vega full eftirvæntingar eftir næsta viðtali þar sem athafnamaðurinn hrósar náttúrlega Jóhanni Páli sem þeim vaska orkuráðherra sem hann sannarlega er – og flengir svo rækilega Guðlaug Þór!
En kanski leggur enginn í Guðlaug Þór eftir að í ljós kom á nýliðnum landsfundi að í Sjálfstæðisflokknum er það hann sem ræður örlögum manna og kvenna – amk. hinnar síefnilegu Áslaugar Örnu og Guðrúnar Hafsteinsdóttur.- Í Sjálfstæðisflokknum er Guðlaugur nefnilega orðinn „Guðjón bak við tjöldin“.