- Advertisement -

Trump er því ykkar maður, Þórlindur.

Gunnar Smári.

Gunnar Smári skrifar:

Það vantar eitt mikilvægt atriði í þessa greiningu á upplausn samfélagsins í kjölfar tímabils nýfrjálshyggjunnar, sem því miður virðist vera stjórnmálastefna og tímabil sem Þórlindur vísar til sem uppbyggingu frjálsra viðskipta, alþjóðlegs samstarfs og mannréttinda. Hið rétta er að undir slíkum slagorðum og yfirvarpi hafa völdin verið færð frá hinum pólitíska vettvangi út á hinn svokallaða markað á liðnum fjórum áratugum, færð frá vettnagi þar sem hver maður hefur eitt atkvæði yfir á vettvang þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Á þessum tímabili voru stjórnmálin skræld að innan allri merkingu og inntaki, eitt megin einkenni þessa tíma var sannfæring um að stjórnmálin væru ekki lausnin heldur vandinn, hinn svo kallaði markaður var bæði lausnin, leiðin og markmiðið. Það sem Þórlindur kallar frjáls viðskipti, alþjóðlegt samstarf og mannréttindi varð í reynd að markaðsvæðingu allra geira samfélagsins, alþjóðavæðingu sem þjónaði hagsmunum alþjóðlegra fyrirtækja en braut niður réttindi launafólks og dró úr völdum hins lýðræðislega vettvangs og mannréttindi fyrirtækja; útvíkkun á skilgreindum eignarétti eigenda þeirra og réttur til skattaundanskota og heimild til málshöfðunar gegn ríkjum ef þau vildu draga úr einkavæðingar almannagæða, -eigna og -auðlinda.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Orkupakkar Evrópusambandsins eru hluti þessarar þróunar; aflagning orkudreifingar sem samfélagsleg verkefnis og veitustarfsemi, félagslegrar starfsemi, innviða og grunnkerfis samfélagsins og umbreytingu þess yfir í samkeppnismarkað einkafyrirtækja. Þessa þróun kynna nýfrjálshyggjumenn allra flokka sem hið náttúrulegu framvindu sögunnar, en alla andstöðu við hana sem niðurbrot samfélagsins.

Það er ekki tilviljun að stjórnmálin í Bandaríkjunum og Bretlandi eru orðin eins og þau eru; þetta eru þau lönd sem gengu lengst í að trúa að það væri enginn annar valkostur við grimma nýfrjálshyggju; þessa sömu trú og því miður svífur yfir vötnunum hjá Þórlindi; sannfæring um að hans hugmyndakerfi hafa fært fólki frelsi, lífskjör og sátt en að nú séu boðflennur innan stjórnmálanna að skemma allt. Og þetta tal um að súper-ríkt fólk sé að leika sér að stjórnmálunum; komandi frá nýfrjálshyggjupáfa og þeim hópi sem einmitt sveigði stjórnmálin alfarið að hagsmunum auðstéttarinnar og gerðu þau nánast að framlengingu að auðvaldi hinna ríku; þá hljómar þetta eins og væll í bitlausum plóg sem eigandinn hefur fleygt, tuð yfir að nýi plógurinn séu hallærislegir og sveitó, hættulegur og skaðlegur.

Öll ábyrgð á niðurbroti samfélagsins á Vesturlöndum, vaxandi ójöfnuði og minnkandi trausti sem af því hlýst, gjánni sem hefur myndast milli elítunnar (sem er ekki hugtak um vel meinandi fólk eins og Þórlindur heldur fram, heldur hugtak yfir húsþræla yfirstéttarinnar sem fórnar hagsmunum akurþrælanna fyrir að fá að búa og starfa í nánd húsbóndans) og hins æ valdaminni, æ eignaminni og æ réttminni almennings; öll sú ábyrgð liggur hjá nýfrjálshyggjufólkinu; bæði því sem hefur skipað sér í hægri flokka og því sem tók yfir vinstri flokkanna og breytti þeim í hægriflokka með mildari (og enn falskari) ásjónu. Nú þegar við stöndum frammi fyrir afleiðingum af upplausn samfélagsins og ofurvöldum hinna ríku þá sameinast nýfrjálshyggjuliðið í eitthvað sem það vill kalla frjálslynda miðju og vill skilgreina sig sem lausnina á vandanum; að óbreytt stefna sem gat af sér upplausnina sé eina svarið við upplausninni. Eruð þið að grínast?

Það mikilvæga atriði sem vantar í greiningu Þórlinds er að Trump er skilgetið afkvæmi nýfrjálshyggjunnar; hann er nýtt leikfang þeirra sem auðguðust ógeðslega á tímum nýfrjálshyggjunnar; þau ætla að verja auð sinn með fasisma. Trump er því ykkar maður, Þórlindur, fyrirbrigði sem hlaut að rísa upp af botnlausri þjónustu nýfrjálshyggjunnar við auðstéttina. Vandi okkar er ekki sá að auðvaldið hefur fundið sér önnur verkefni en ykkur nýfrjálshyggjumenn allra flokka; vandinn er að þið rænduð almenning stjórnmálunum og baráttutækjum sínum síðustu fjörutíu árin, möguleikanum á að móta samfélagið eftir eigin væntingum og hagsmunum.

Ég held ekki að ég sé að segja Þórlindi nein tíðindi, ég held hann hafi fyrir löngu áttað sig á eyðileggingarafli nýfrjálshyggjuáranna. En því miður er hugmyndadeiglan til hægri svo veik orðin að hann ratar einhvern veginn ekki út. Ég þekki svo illa hægrið að ég get ekki vísað honum veginn, aðeins bent honum á að eina sómasamlega staðan í dag er meðal þeirra sem hafa mátt þolað mest óréttlæti á tímum nýfrjálshyggjunnar. Öll önnur staða þjónar auðvaldinu á einn eða annan hátt. Ég hvet því Þórlind að taka sér stöðu meðal þeirra sem verst standa og heyja stjórnmál sín þaðan. Það kallast sósíalismi.

Hér er hægt að lesa grein Þórlindar:


https://www.visir.is/g/2019190419708/hvernig-gat-thetta-gerst-?fbclid=IwAR0JUs4kVNz4Vdt3DwA2L3-oyiG5HCluhJDhCkZngrDnMlj6BgW2FdD9dZ0


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: