- Advertisement -

Útgerðin vill að sjómenn borgi hluta af auðlindagjöldunum

Þessum hugmyndum höfum við hafnað og neitað að ræða um.

„Eins og komið hefur fram áður þá ganga samningaviðræður við SFS ekki neitt. Búið er að halda 13 fundi hjá sáttasemjara án nokkurs árangurs. Það er nokkuð ljóst að markmið útgerðarmanna er að auka ekki launakostnað til sjómanna. Aðalkröfur VM og stéttarfélaganna hefur verið að fá aukið gegnsæi í fiskverð með styrkingu verðlagsstofu og sama mótframlag í lífeyrissjóð og aðrir landsmenn,“ skrifar Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna.

„Útgerðarmenn hafa svarað því þannig að ef sjómenn fái það sama í lífeyrissjóð og aðrir landsmenn þá þurfi þeir að taka á sig aukin kostnað annars staðar, t.d að greiða hluta af auðlindagjöldunum fyrir útgerðarmenn. Þessum hugmyndum höfum við öllum hafnað og neitað að ræða um.

Við höfum heimsótt sjómenn í Reykjavík, Grindavík, Vestmannaeyjum og á Höfn og stefnum á að heyra í enn fleirum sjómönnum í næstu viku. Félagið er orðið mjög svartsýnt á að nokkur niðurstaða fáist án þess að til átaka komi.

Við heyrum það víða ekki bara hjá sjómönnum að hagsmunagæsla útgerðarmanna sé komin út fyrir öll mörk. Við höfum sagt það áður og segjum það enn að þau sem fara með auðlindir þjóðarinnar þurfa að gera það í sátt og samlyndi við þjóðina. Við finnum fyrir stuðningi frá almenningi við kröfur sjómanna enda fara hagsmunir sjómanna og almennings saman í þessu máli. Rétt fiskverð þýðir ekki bara hærri laun fyrir sjómenn heldur einnig hærri auðlindarenta fyrir ríkissjóð og samfélagið allt.

Ef útgerðarmenn geta ekki einu sinni náð sátt við sjómenn landsins hvernig eiga þau þá að ná sátt við þjóðina?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: