- Advertisement -

„Vanilluís“ sem er ekki ís og hefur alls enga vanillu

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: Hér er vanilluís frá Kjörís sem hvorki er með vanillu né er í raun ís. Það kallast mellorine á útlensku þegar undanrennuduft er drýgt með dýra- eða jurtafitu annarri en rjóma. Eins og sjá má af innihaldslýsingunni er Kjörís mjúkís með vanillu einmitt þannig vara og alls ekki ís í venjulegri merkingu þess orðs. Og það er engin vanilla í þessum mellorine: Vatn, undanrennuduft, hert kókosfita (<1% transfita), sykur, þrúgusykur, bindiefni (natríumalgínat, karóbgúmmí, gúargúmmí, glýseról, karboxímetýlsellulósi, ein- og tvíglýseríð), bragðefni, litarefni (annattólausnir).

Víða um lönd eru í gildi lög sem banna fyrirtækjum að selja vöru sem eitthvað annað en hún er. Roquefort ostur er ekki annar ostur en sauðaostur sem er látinn þroskast í hellum við Roquefort-sur-Soulzon. Þú mátt búa til mygluost úr sauðamjólk annars staðar en getur ekki kallað hann Roquefort. Þetta bann má rekja til laga sem sett voru 1411, árið sem Jóhannes XXIII mótpáfi bannfærði Jóhann Húss.

MS tekur ekkert mark á svona nokkru, framleiðir osta og kallar þá Gouda, Camenbert, Brie og allskonar án þess að ostarnir séu líkir þeim ostum sem bera og hafa unnið fyrir þessum nafngiftum. Og MS framleiðir sýrðan rjóma sem er eitthvað allt annað en rjómi sem hefur verið sýrður.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við ættum að krefjast þess að MS framleiddi raunverulegan sýrðan rjóma og kallaði þá vöru sem fyrirtækið framleiðir í dag sýrt rjómalíki, ostana brie-líki og goudalíki. Og að Kjörís kallaði mjúkís með vanillu réttu nafni: smjörlíkisís með gervivanillu. Og að það sem selt er sem skinka í dag með 20%, 30% og jafnvel 40% vatnsinnihaldi sé kallað kjötlíki, legið í vatnsbaði með reykefni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: