- Advertisement -

Villi Birgs hættir í ASÍ

Yfirlýsing frá Vilhjálmi Birgissyni:

Í morgun var viðtal við forseta ASÍ á RUV þar sem hún segir að ASÍ hafi hafnað tillögu Samtaka atvinnulífsins um að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrisgreiðslum verði lækkað tímabundið til að bregðast við verri rekstrarskilyrðum fyrirtækja vegna kórónuveirufaraldursins. En orðrétt sagði forseti ASÍ einnig í þessu viðtali: „þetta er of alvarleg aðgerð til að hægt sé að grípa til hennar.“

Ég verð að lýsa undrun minni á þessum orðum því á fundi hjá samninganefnd ASÍ á síðasta föstudag lagði forseti ASÍ fram tillögu um að fresta öllum launahækkunum á íslenskum vinnumarkaði tímabundið. Það vekur því forundrun mína að telja það í lagi að leggja fram tillögu um að fresta og taka allar launahækkanir af launafólki á öllum íslenskum vinnumarkaði, en segja núna nokkrum dögum síðar að það sé of „alvarlega aðgerð“ að lækka mótframlag atvinnurekenda tímabundið í lífeyrissjóð.

Þessi staða sem er að teiknast upp á íslenskum vinnumarkaði er vægast sagt hrollvekjandi, enda er alltof stór hluti tannhjóla atvinnulífsins við það að stöðvast og ég tel það ábyrgðarlaust að gera ekki neitt til að verja störf launafólks. En í dag eru 23 þúsund manns komnir í skert hlutastarf og uppundir 15 þúsund á fullar atvinnuleysisbætur.
Þessi staða á vinnumarkaðnum er nú þegar orðin mun verri en hún varð í hruninu og það er ljóst að við verðum að finna leiðir til að verja störfin, verja kaupmáttinn og verja heimilin. Við verðum að finna leiðir til að verja lífsviðurværi og síðast en ekki síst atvinnuöryggi launafólks eins og kostur er á meðan þessi faraldur gengur yfir.

Við verðum að finna leiðir.

Það liggur fyrir að fjölmargir atvinnurekendur hafa óskað eftir við stéttarfélögin að við þessar fordæmalausu aðstæður sem við eigum nú við að etja verði að fresta þeim launahækkunum sem eiga að koma til framkvæmda á morgun.

Ég hef alltaf sagt að það komi ekki til greina, enda þarf launafólk á þessum launahækkunum á að halda. Hins vegar höfum við Ragnar Þór hjá VR viljað fara aðra leið vegna þess skelfingar ástands sem ríkir á vinnumarkaðnum vegna faraldursins.

Sú leið byggist á því að í stað þess að fresta launahækkuninni þá verði mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð lækkað úr 11,5% í 8% tímabundið meðan faraldurinn gengur yfir. En markmiðið með þessari leið væri að verja atvinnuöryggi launafólks og tryggja um leið að launahækkanir skili sér til launafólks sem og að verja kaupmátt okkar félagsmanna.

Það er rétt að vekja athygli á því að krafa okkar fyrir slíkri leið að lækka mótframlagið tímabundið var háð því skilyrði að vísitölutengja þá frestun sem þýðir að ef t.d. verslun og þjónusta hefði varpað kostnaðarhækkunum út í verðlagið í miklu mæli þá hefði þetta úrræði dottið niður að hluta til. Sem sagt lífeyrisleiðin var með verðlagsvörn fyrir okkar félagsmenn til að verja kaupmátt okkar félagsmanna.

Það er ábyrgðarlaust að gera ekki neitt.

En aðalmarkmiðið með þessari aðgerð væri að verja störf við þessar fordæmalausu aðstæður sem við stöndum nú frammi fyrir á íslenskum vinnumarkaði og ef þessi aðgerð myndi leiða til þess að okkur tækist að verja 200, 400, 500 eða jafnvel þúsundir starfa þá væri hún skynsamleg.

Það er ábyrgðarlaust að gera ekki neitt enda er vinnumarkaðurinn að breytast í blóðugan vígvöll og það bitnar eins og alltaf á almennu launafólki eins og tölur Vinnumálastofnunar staðfesta.

Ég skynjaði í samtölum mínum við stjórnvöld á undanförnum dögum að það væri fullur vilji þeirra til að styðja við, ef verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur næðu saman, með nokkrum aðgerðum eins og að koma hlutdeildarlánunum í gegn sem Covid mál sem og að verja heimilin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti.

Það má því segja að þessi skynsama leið sem lækkun mótframlags í lífeyrissjóðina hefði fangað alla þessa þrjá þætti þ.e.a.s verja störfin, verja kaupmáttinn og verja heimilin.

Mér finnst það þyngra en tárum taki að hafa lagt fram tillögu um taka tímabundið launahækkanir af launafólki í stað þess að fara þessa lífeyrisleið sem skilar eins og áður hefur komið fram sama ávinningi. En það virðist vera sem sumir í verkalýðshreyfingunni líti á lífeyrissjóðina sem „heilaga“ sem aldrei megi gagnrýna né snerta.

Í ljósi alls þessa og þess djúpstæða ágreinings milli hluta aðila í samninganefnd ASÍ hef ég með miklum trega sent forseta ASÍ bréf þar sem fram kemur að ég segi af mér sem 1. varaforseti ASÍ.

Að lokum vil ég segja að ég hef sem 1. varaforseti ASÍ hef lagt mig allan fram við vinna heiðarlega og af krafti við verja hagsmuni launafólks og ítreka það er mig tekur sárt að þurfa að taka þessa ákvörðun núna því ég veit að baráttunni fyrir hagsmunum launafólks lýkur aldrei!Sendi öllum þeim sem er að missa lífsviðurværi sitt og verða fyrir skerðingu á starfshlutfalli ósk um að þetta ótrúlega ástand gangi fljótt yfir og okkur takist saman að lágmarka þau áföll sem launafólk verður fyrir vegna faraldursins.

Stöndum saman um að, verja störfin, verja kaupmáttinn og verja heimilin!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: