- Advertisement -

Við erum öll jafn mikilvæg

Katrín Baldursdóttir:

Og núna eftir allan þennan tíma er ég kominn rækilega út úr skápnum og í oddavitastætið í kjördæminu.

Ég lærði af afríkubúum bæði í Kenýa og Tansaníu að hoppa og hoppa hátt. Það kom sér vel þegar ég áttaði mig á því að til stæði að stofna flokk sósíalista á Íslandi. Þá hoppaði ég svo hátt að ég man ekki eftir öðru eins. Og ég hoppaði líka hátt í morgun þegar ég sá það með berum augum að sósíalistar völdu mig í fyrsta sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður. Fyrir það er ég óendanlega þakklát og mun reyna að standa mig eins vel og ég get.

En þetta byrjaði ekki svona. Þetta byrjaði þegar ég var mjög ung. Ég ólst nefnilega upp við pólitískar umræður. Öll kvöld kom hópur af köllum heim og svo var rökrætt og plottað, oft langt fram á nótt. Það var þegar konurnar voru ekki hafðar með, eða þá eingöngu til að steikja kjötbollur og vera til þjónustu reiðubúnar. Og þetta voru allt framsóknarmenn. Ég fæddist inn í Framsókn. Einn daginn þegar ég var 14 ára gömul kom ég heim og tilkynnti foreldrum mínum að ég ætlaði að kjósa Alþýðubandalagið. Þá urðu menn nú kindarlegir á svipinn og buggjust nú við að unga hnátan myndi sjá að sér. Af því að menn eru jú róttækir þegar þeir eru ungir en sjá svo að sér. En það fór nú ekki svo. Nokkrum árum síðar voru báðir foreldrar mínir komnir í Alþýðubandalagið. Þau eltu litlu hnátuna sem þau héldu að myndi færast til hægri með árunum.

Svo liðu árin, kalda stríðið og ameríski draumurinn var í tísku og sósíalismi var bannorð. Ég gerðist líka blaðamaður og lokaði sósíalísku draumana inn í skáp. En mig langaði alltaf að koma út úr skápnum en ég gat það ekki. Skráargatið var ekki einu sinni opið. Og við það sat og alltaf var gert lítið úr mínum sósíalísku skoðunum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þar til haustið 2014. Þá var ég stödd í London og mikil spenna í loftinu, því það fóru fram kosningar um sjálfstæði Skotlands. Maður lá límdur við sjónvarpið á hótelinu eftir rölt dagsins og fylgdist með kosningasjónvarpinu fram á nótt. Svo kom svekkelsið. Sjálfstæðið var ekki samþykkt og maður fór hálf fúll heim. Og missti næstum af flugvélinni.

En viti menn, við hlið mér í flugvélinni sagt írskur læknir á leið á ráðstefnu í Hörpu. Hann var líka svekktur vegna úrslitanna og sagði svo í óspurðum fréttum, hátt og skýrt. “Ég er sósíalisti.” Mér varð svo um að það tók mig nokkrar sekúndur að fatta hvað þetta var æðislegt. Ég hefði líka hoppað hæð mína í flugvélinni hefði ég getað það.

Ég kom heim og byraði að æfa mig að segja þetta upphátt. “Ég er sósíalisti, ég er sósíalisti, ég er sósíalisti.” Ég var búin að æfa mig heima í 3 ár þegar hinn fagri dagurinn 1. maí 2017 rann upp. Sósíalistaflokkur Íslands var stofnaður og ég gat fagnað með hoppi, látum og hrópum. Og núna eftir allan þennan tíma er ég kominn rækilega út úr skápnum og í oddavitastætið í kjördæminu. Þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn og að hafa trú á mér og öllum þeim sem hafa tekið þátt í samræðum við mig hér á facebook. Baráttan um Ísland er hafin. Við erum nefnilega öll jafn mikilvæg.

Listi Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavík Suður:

  • Katrín Baldursdóttir, atvinnulífsfræðingur
  • Símon Vestarr Hjaltason, kennari
  • María Lilja Þrastardóttir Kemp, laganemi
  • Jón Kristinn Cortez. tónlistarmaður
  • Ása Lind Finnbogadóttir, framhaldsskólakennari
  • Jón Óskar Hafsteinsson, myndlistarmaður
  • Sigrún Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri
  • Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir, frístundaleiðbeinandi
  • Bára Halldórsdóttir, öryrki
  • Bárður Ragnar Jónsson, þýðandi
  • Ellen Kristjánsdóttir, tónlistarmaður
  • Björn Reynir Halldórsson, sagnfræðingur
  • Krummi Uggason, námsmaður
  • María Sigurðardóttir, leikstjóri
  • Tamila Gámez Garcell, kennari
  • Elísabet Einarsdóttir, öryrki
  • Kristjana Kristjánsdóttir, leikskólakennari
  • Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi
  • Mikolaj Cymcyk, námsmaður
  • Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor
  • María Gunnlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og öryrki
  • Andri Sigurðsson, hönnuður

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: