- Advertisement -

Við erum þrælar kerfis sem sýgur öll verðmæti úr samfélaginu


Löngu er tímabært að verkalýðshreyfingin ræði hvernig við getum breytt bankakerfinu.

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

,,Í dag erum við ekki bara þjónar, heldur þrælar ákveðins kerfis sem sýgur öll verðmæti út úr samfélaginu og skapar ekkert á móti“

Þetta sagði ég í Silfrinu sunnudaginn 6. október. 11 árum eftir að Geir bað Guð að blessa Ísland.


Ég benti á sögu kerfisins frá einkavæðingu.

Í viðtalinu kallaði ég eftir því að verkalýðshreyfingin, í samstarfi við lífeyrissjóðina, kæmu að stofnun banka sem hefði þann tilgang að þjóna samfélaginu en ekki öfugt.

Ég var spurður hvort þetta væri ekki of dökk mynd sem ég væri að draga upp af fjármálakerfinu? Ég benti á sögu kerfisins frá einkavæðingu.

En hver er sagan?

Ef við tökum nokkrar staðreyndir úr sögu fjármálakerfisins síðustu ár sem ég vona að þjóðin gleymi aldrei þó einhverjir stjórnmálamenn vilji ekkert frekar.

1. Stjórnendur og eigendur bankanna tóku stórkostlega stöðu gegn íslensku krónunni „Samfélaginu“ á meðan þeir sannfærðu almenning um að allt væri í himna lagi og lánuðu viðskiptavinum sínum, grandalausu fólki og fyrirtækjum, gengistryggð lán sem síðar stökkbreyttust með skelfilegum afleiðingum. Eftirlaunasjóðir almennings voru svo sannfærðir um að vera mótaðilar gegn betri vitund þeirra sem stjórnuðu bönkunum á þeim tíma.

2. Starfsmönnum bankanna var skipað að hringja í gamla fólkið, sem átti ríkistryggðar innistæður á bankareikningum, til að færa yfir í peningamarkaðssjóði. Þetta var gert með kerfisbundnum þrýstingi þangað til fólk gafst upp og lét undan ágangi bankanna. Ævisparnaði þúsunda var stolið með þessum hætti.

Eigendur bankanna stunduðu kerfisbundnar blekkingar og markaðsmisnotkun.

3. Eigendur bankanna stunduðu kerfisbundnar blekkingar og markaðsmisnotkun sem eiga sér vart hliðstæðu í veraldar sögunni. Þeim var skítsama um fólkið. Skítsama um lítil og meðalstór fyrirtæki, skítsama um samfélagið. Allt snerist um að halda uppi gengi, fá greidda bónusa og sjá sjálfum sér og útvöldum fyrir óheftum aðgang að lánsfé til að kaupa það sem hugurinn girnist á hverjum tíma og viðhalda sturluðum lífsstíl. Siðleysið var svo yfirgengilegt að enn í dag telur bróðurpartur helstu gerenda í einni stærstu skipulögðu svikamyllu og gjaldþroti heimssögunnar sig vera fórnarlömb. Þrátt fyrir að hafa haldið eftir stórum hluta eigna sinna.

4. Bankarnir og ráðgjafar þeirra léku stórt hlutverk í að skipuleggja fléttur til að koma auðmönnum undan því að greiða skatta af eignum sínum með því að fela eignarhald peninga og fyrirtækja í flóknu neti skattaskjóla. Allt til þess að auðugasti minnihluti þjóðarinnar þyrfti ekki að halda uppi grunnþjónustu og innviðum sem þeir þó sjálfir nota.

5. Einhverjir hefðu haldið að eitthvað myndi breytast eftir hrun sem jú varð raunin. Almenningur og fyrirtækin voru mergsogin með öðrum aðferðum.

6. Skilanefndir föllnu bankanna sáu til þess, með stuðningi stjórnvalda og löggjafans, að mergsjúga allt sem hægt var að ná út úr heimilum landsins og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Fólkið var skilið eftir án þess að hafa samningsstöðu gagnvart bönkunum sem fengu óáreittir að halda úti ósanngjörnum og jafnvel ólögmætum kröfum á fólk og fyrirtæki. Útsendarar og stjórnir skilanefnda fengu veglega borgað fyrir vikið og jafnvel verðlaunaðir eftir því hversu mikið þeir gátu kreist út úr saklausu fólki.

Nú þegar hefur bönkunum tekist að hafa um 650 milljarða af almenningi og fyrirtækjum frá hruni.

7. Nú þegar hefur bönkunum tekist að hafa um 650 milljarða af almenningi og fyrirtækjum frá hruni. Fórnarkostnaðurinn verður ekki metinn til fjár en við vitum að þarna liggja að minnsta kosti 15.000 heimili ásamt hundruðum fyrirtækja sem auðveldlega hefði mátt bjarga ef nokkur einasti vilji hefði verið til staðar.

8. Fjármálakerfið í sinni verstu mynd er ekki sér íslenskur raunveruleiki. Skattaundanstkot, ofurbónusar, markaðsmisnotkun og önnur fjárglæpastarfsemi á sér fyrirmyndir. Margar þeirrar þekktar og aðferðirnar kenndar við einstaklinga. Nýjasta dæmið af framgöngu fjármálakerfisins er eitt stærsta fjársvikamál sem upp hefur komist í sögu Evrópu. Margir af stærstu evrópsku fjárfestingabönkunum eru viðriðnir málið sem snýr að peningaþvætti og ótrúlega bíræfnum skattsvikum sem hlaupa á, að minnsta kosti, 8.000 milljörðum króna. Þetta eru fjármunir sem annars hefðu verið notaðir í að byggja upp innviði og halda úti grunnþjónustu þeirra landa sem verst urðu úti í svikunum. Svo halda menn því fram að eitthvað hafi breyst til hins betra.

9. Við í verkalýðshreyfingunni höfum barist fyrir lægri vöxtum. Ekki eingöngu til að lækka kostnaðinn við að lifa heldur til að auka líkur á því að okkur takist að eignast þak yfir höfuðið á lífsleiðinni. Hluti af þessu markmiði er að fyrirtækin standi betur undir kjarabótum með því að lækka vaxtakostnað þeirra.


Erum við þjónar fjármálakerfisins eða jafnvel þrælar þess?

Erum við þjónar fjármálakerfisins eða jafnvel þrælar þess?

Það er mikilvægt að gleyma ekki sögunni. Það er líka mikilvægt að læra af þeim sem gera hlutina vel.

Samfélagsbankar eru ekki tilbúningur úr vísindaskáldsögum heldur viðskiptabankamódel sem hefur reynst ákaflega vel í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við og horfi ég þá helst til Sparkasse bankanna þýsku sem þjónustar bróðurpart almennings þar í landi.

Það er löngu tímabært að verkalýðshreyfingin fari að ræða það af alvöru hvernig við getum breytt bankakerfinu íslenska til frambúðar. Búa til kerfi sem þjónar fólki og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Kerfi sem þjónar samfélaginu en ekki öfugt.

Með þessum orðum óska ég Hagsmunasamtökum heimilanna til hamingju með 10 ára afmælið. Höldum ótrauð áfram í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: