- Advertisement -

Við vitum sjálfar nákvæmlega hvers virði við erum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:

Sumir menn trúa því að sumt launafólk sé friðlaust nema að stór hópur annars launafólks fái svo lág laun að þeim sé gert að lifa við stöðugar fjárhagsáhyggjur. Sumir menn trúa því að það sé ekkert athugavert við það að sumt fólk beri sífellt þyngri byrðar á meðan aðrir lifa í vellystingum. Sumir menn trúa því að „leiðrétting“ sé aðeins fyrir þau sem enga leiðréttingu þurfa, fólkið sem að tilheyrir Kjararáðs-þjóðinni. Sumir menn trúa því að hlutverk láglaunakonunnar sé að taka ofur-arðráninu með brosi á vör; takk, herra minn, fyrir að leyfa mér að vinna í dýrasta landi í heimi fyrir lægstu laun á íslenskum vinnumarkaði. Sumir menn láta eins og efnahagshrunið árið 2008 hafði ekki átt sér stað, að 10.000 fjölskyldur hafi ekki misst heimili sín, sumir menn láta það viðgangast að fullvinnandi manneskja borgi næstum allar sínar ráðstöfunartekjur í húsaleigu. Sumir menn láta sem að þeir heyri ekki þegar láglaunakonur stíga fram og segja hátt og skýrt: Hingað og ekki lengra!

Sumir menn gera ekkert nema að hella olíu á eldinn; allt sem að þeir segja opinberar algjört skilningsleysi þeirra á kjörum okkar og aðstæðum, gerir það aðeins að verkum að baráttuvilji okkar verður meiri og meiri. Þeir trúa því að það sé náttúrulögmál að við höldum áfram að strita á samræmdum útsölumarkaði láglaunastefnunnar. Þeir opinbera skeytingarleysið gagnvart okkur í hvert skipti sem að þeir opna munninn. En vitiði hvað: Það skiptir okkur engu máli. Við vitum sjálfar nákvæmlega hvers virði við erum. Við erum hér, við stöndum saman og borgin, hún er í okkar höndum!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: