- Advertisement -

Viðreisn hælir ríkisstjórninni

„Við erum að tala um risastór prinsippatriði.“

„Við í Viðreisn höfum lagt okkur fram um að hæla ríkisstjórninni þegar á við en við gagnrýnum hana þegar þörf er á. Við styðjum góð mál, við stoppum vond mál, við breytum vondum málum og reynum að hafa áhrif á þau,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, á Alþingi, í umræðunni um stjórnarskrárfrumvörp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Og þetta mál er eitt stærsta og áhrifaríkasta mál ríkisstjórnarinnar undir forystu Vinstri grænna og það er formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem leggur það fram. Það er engin útskýring á því af hverju það er kúvending á stefnu þeirrar hreyfingar í þessum málum varðandi tímabindingu, varðandi það að virkja þjóðareignina. Að setja eitthvað í stjórnarskrá sem engu breytir frá núgildandi lögum, hvern er verið að blekkja?“

„Af hverju er ekki unnið áfram með tillögur auðlindanefndarinnar frá árinu 2000? Ég gat um það sérstaklega að árið 2000 hafi auðlindanefndin gert sér grein fyrir því að 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna tryggði ekki virka þjóðareign. Það þyrfti að gera þetta almennilega. Það þyrfti að breyta lögum. Það þyrfti að setja inn í fiskveiðistjórnarlögin tímabundna samninga,“ sagði hún. „Af hverju á sjávarútvegurinn einn auðlindagreina að vera án tímabundinna samninga þegar nýta á sameiginlega auðlind þjóðarinnar? Af hverju? Hvers konar sérhagsmunagæsla er þetta? Við erum að tala um risastór prinsippatriði.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: