Hrafn Magnússon skrifaði:
Ég verð því miður að segja að frekja og yfirgangur einkenni oft málflutning þessa félagsskapar, ekki síst nú að unanförnu. Það er ekki nóg að gerð sé tilraun með rándýrum auglýsingum að sá tortryggni og egna lansbyggðina gegn þėttbýlinu, heldur er gerð atlaga í þá átt að veikja meginstoðir framkvæmdavaldsins og löggjafans.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, eru ekki vinsæl meðal almennings og kemur margt til. Sama var reyndar upp á teningnum hjá forvera þessara samtaka,. LÍÚ, Landsambands íslenskra útvegsmanna.
Tvennt skal hér minnst á. Stjórnvöld hafa lagt fram tillögu um leiðréttingu á veiðigjöldum eins og kunnugt er. Daginn áður en ríkisstjórnin boðaði fréttamannafund þar sem þessar tillögur voru kynntar, sendu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi frá sér yfirlýsingu þar sem mótmælt var þessum áformum stjórnvalda um þessa sjálfsögðu leiðréttingu. Ekki var sýnd sú kurteisi af hálfu SFS að bíða með mótmælin þar til stjórnvöld höfðu kynnt þessar tillögur sínar. Steininn tók svo úr þegar þessi hagsmunasamtök hunsuðu þann frest sem gefinn var til að koma fram með athugasemdir. SFS tilkynnti að þau ætluðu sér að taka lengri frest.
Vonandi er hér aðeins um að ræða tímabundið frekjukast af hálfu þessara hagsmunasamtaka, en sjálfsagt er að benda á að þetta framferði getur grafið undan lýðræðinu í landinu ef ekki tekst að koma vitinu fyrir samtökin.