- Advertisement -

Bjarni og Katrín skilja ekkert í fólki

Hvorki Bjarni Benediktsson né Katrín Jakobsdóttir skilja hvað forysta verkalýðsfélaga vill upp á dekk. Að það fólk ybbi gogg og það á sjálfan 1. maí.

Forystu vinnandi fólks finnst skítt að fólk í fullri vinnu, kannski tveimur vinnum og jafnvel í þremur vinnum nái ekki endum saman. Þau vilja til dæmis að sett verði lög á okurleigufélögin. Fátækt fólk á Íslandi borgar jú mest allra í leigu. Meira en hægt er að ráða við.

Bjarni hefur áður sagt vanda þess fólks vera þann helstan að það kunni ekki fjármálalæsi. Þar liggi vandinn og hana, hana nú. Nú bætir Katrín við og segist bara ekkert skilja í fólki að láta svona.

Þó dæmin sýni og sanni að fólk í fullri vinnu, jafnvel tveimur og þremur, nái ekki endum saman finnst Katrínu ekki réttlátt að boðuð séu átök þess vegna. Katrín bendir réttilega á að hún og Bjarni hafi hækkað atvinnuleysisbætur. Svo hvað er eiginlega að, er spurt í ríkisstjórninni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvað þarf þetta fólk meira en hærri atvinnuleysisbætur? Er vandinn ekki leystur, er spurt í stjórnarráðinu.

Bjarni og Katrín lögðu ljósmæður í bændaglímu og halda þeim kolföstum. Þau undirbúa nú ámóta bolabrögð gegn öðru fólki. „…sýn­ist mér hæpið að slíkt stand­ist lög…“ segir Bjarni í Mogga dagsins um boðaða baráttu launafólks.

Ríkisstjórn Bjarna og Katrín er ákveðin. Það á við um fleiri. Það stefnir í hörð átök.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: