- Advertisement -

Þetta er Halldór Benjamín Þorbergsson

Björg K. Sigurðardóttir.

Björg K. Sigurðardóttir skrifar: Þetta er Halldór Benjamín Þorbergsson. Hann er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Honum er brugðið yfir kröfugerð verkalýðsfélags að lágmarkslaun verði 375 þúsund krónur á mánuði. Það er reyndar ekkert nýtt að Halldóri sé brugðið þegar kjarabætur til almenns launafólks koma til umræðu, sama hvaða tölur eða prósentur um er rætt.

Það getur auðvitað verið slæm tilfinning að vera illa brugðið og ég vona að Halldór nái fljótt áttum og jafni sig. En nú bregður kannski einhverjum þegar ég segi að sjálfur var Halldór með 3,6 milljónir í mánaðarlaun í fyrra.

Sá sem telur sig þurfa 3,6 milljónir á mánuði til framfærslu fyrir sig og sína á sama tíma og hann reynir að koma í veg fyrir kjarabætur hinna lægstlaunuðu hlýtur að vera stoltur þegar hann horfir framan í starfsfólk á leikskólum barna sinna, eða starfsfólkið sem annast ömmu hans og afa á elliheimilinu, fólkið sem afgreiðir hann í búðum o.s.frv. Í raun ætti enginn annar en sá sem hefur margar milljónir í mánaðarlaun að hafa betri skilning á því að annað fólk þarf líka mannsæmandi laun en því miður virðist það ekki eiga við.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Kannski er það bara alveg rétt hjá Halldóri Benjamín að það muni allt fara til fjandans ef lágmarkslaun verða hækkuð í 375 þúsund á mánuði. En á meðan hann sjálfur telur eðlilegt að taka við 3,6 milljónum á mánuði fyrir vinnuframlag sitt þá er það ekkert annað en ógeðslegt að berjast með kjafti og klóm gegn því að almenningur fái launahækkanir. Kannski væri málflutningur Halldórs trúverðugri ef launabilið milli hans og hinna lægst launuðu væri aðeins minna?

Nú finnst þeim sem þekkja Halldór, hann örugglega bara frábær maður. Og duglegur og klár. Kannski les þetta einhver sem var með honum í skóla, einhver sem er með honum í Rótarý eða á kóræfingu eða þekkir frænku hans og finnst ég bara ógeðslega leiðinleg að vera að hnýta svona í hann Halldór. Ég sé bara öfundsjúk af því ég sé ekki jafndugleg og klár og frábær og hann Halldór og launaumslagið mitt er ekki eins og Halldórs. Gott og vel. Ég vona bara að ég verði aldrei svo ógeðslega ómerkileg týpa að ég muni reyna að réttlæta það fyrir sjálfri mér eða öðrum að það sé í lagi að fólk sem vinnur alls konar störf eigi að lifa á launum sem duga ekki til framfærslu. Að það sé bara eðlilegt að fullt af fólki geti aldrei eignast íbúðir, geti aldrei farið út útlanda, geti ekki sent börnin sín til tannlæknis o.s.frv. Það stærsta sem er að í þessu þjóðfélagi held ég að sé það að of mörg pæla bara ekkert í því að aðrir hafi það skítt eða telji að þetta fólk verði bara að gera betur. Læra meira, koma sér betur á framfæri o.s.frv.

Stundum held ég í alvöru að einhver raunsannasta stjórnmálafræðikenning sem sett hefur verið fram sé að fólk vilji bara græða á daginn og grilla á kvöldin. Sem sagt ef það hefur það bara nógu gott í sinni búbblu með sín forréttindi þá skiptir engu máli hvernig aðrir hafi það. En sko meðaltölin segja að…. og þá er bara allt í lagi.

Annars er ég bara hress!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: