- Advertisement -

350 störf hafa tapast frá sameiningu

- vilyrði um starfsemi á Akranesi hafa verið svikin. Stærsti vinnustaðurinn tekinn og fluttur yfir flóann og austur á land.

Þegar samningar tókust um sameiningu Haraldar Böðvarssonar á Akranesi og Granda í Reykjavík varð til stærsta sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Haraldur Böðvarsson var fyrir sameininguna þriðja stærsta fyrirtækið í atvinnugreininni.

Fyrirtækið var ekki bara skattakóngur síns kjördæmis, heldur og stærsti vinnuveitandinn. Þar störfuðu vel yfir þrjú hundruð starfsmenn, störfin voru um 350. Haraldur Böðvarsson réð yfir 23 þúsund þorskígildis tonna kvóta. Tillegg Akurnesinga í sameininguna var því ríkulegt.

Þegar gengið var til sameiningarinnar var fullvissa um að starfseminni á Akranesi yrði haldið áfram. Annað var ekki rætt og annað kom ekki til greina. Þau vilyrði hafa verið svikin. Jens Garðar Helgason, sem er formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að samfélagsábyrgð Granda sé mikil og bendir á uppbyggingu fyrirtækisins á Vopnafirði. Þar hefur Grandi byggt bestu aðstöðu til að vinna uppsjávarfisk og er að klára eða nýbúinn að ljúka við fullkomið fiskiðjuver fyrir botnfisk.

Akurnesingum er brugðið. Auðvelt er að gera alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun að heimanmundur Akurnesinga sé notaður í uppbyggingu hinum megin á landinu. Einkum þar sem samskonar vinnslustöðvar eru jú á Akranesi. Þeim verður lokað.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvað varðar uppsjávarfiskinn er staðreynd að það er styttra að sigla með síld og oftast með loðnu, frá miðunum, til Akraness en til Vopnafjarðar. Akranes er tíu sinnum stærra samfélag en Vopnafjörður og því meiri vissa um aðföng, viðgerðir og annað sem þarf til að reka stór iðjuver og öfluga útgerð.

Hér er alls ekki verið að kasta rýrð á Vopnafjörð eða Vopnfirðinga. Hér er einungis verið að fjalla um hvað varð um tillegg Akurnesinga við sameiningu Haraldar Böðvarssonar og Granda.

Eitt hafa Vopnfirðingar sem Skagamenn hafa ekki. Vilhjálm Vilhjálmsson, sem nú er forstjóri Granda. Vilhjálmur var áður framkvæmdastjóri Tanga á Vopnafirði. Það kann að ráða miklu um ákvarðanir Granda á liðnum árum.

Þegar Jens Garðar Helgason, bendir á uppbygginguna á Vopnafirði til sönnunar um samfélagslega ábyrgð og þátttöku Granda verður að efast um að það sé rétt. Vopnfirðingar geta hvenær sem er lent í sömu sporum og svo mörg önnur sjávarpláss. Að þeim verði rústað með einni ákvörðun, ákvörðun sem þá verður tekin í Reykjavík. Alls ekki í samráði við heimafólk.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: